Af hverju Framsókn?

Liv Åse Skarstad

Þegar ég ákvað að bjóða mig fram til starfa fyrir Framsókn, fyrir rúmum fjórum árum síðan, þá var það vegna þess að mig langaði til að bjóða mig fram til góðra verka fyrir samfélagið mitt. Samfélag sem hafði verið mitt í þónokkuð mörg ár og samfélag sem hafði tekið mér og fjölskyldu minni opnum örmum. Samfélag sem síðar átti eftir að reynast mér vel á ögurstundu og stóð þétt við bakið á mér og fjölskyldu minni. Þetta er eitthvað sem ég og mín fjölskylda komum seint til með að geta þakkað fyrir.

Ég bauð mig fram fyrir Framsókn því í grunneðli mínu er ég miðjumanneskja. Ég trúi því staðfastlega að til þess að ólík öfl hægri og vinstri geti unnið saman, þurfi að mætast á miðjunni. Á miðjunni þar sem við erum laus við öfgar til hægri og vinstri. Ég trúi því að allir eigi sinn stað í samfélaginu og að allir eigi sama rétt óháð efnahag. Sama rétt til menntunar, atvinnu, hafi sama aðgang að heilbrigðis- og velferðarþjónustu og svo mætti áfram telja. Ég trúi því líka að við þurfum að styðja vel við atvinnulífið og fyrirtækin, því án þeirra væri engin atvinna. Við þurfum að hlúa vel að barnafólki, eldra fólki, einstæðum foreldrum, öryrkjum, ÖLLUM! Í stefnuskrá Framsóknar segir „Við setjum manngildi ofar auðgildi og viljum að hver og einn hafi sama rétt til menntunar, þroska, grundvallarlífskjara og náttúrugæða óháð uppruna, heilsu og efnahag.“

Ég hef oft verið spurð að því af hverju ég styðji Framsókn? Af hverju valdi ég að vinna með flokki sem oftast er nefndur landsbyggðaflokkur, flokkur bænda og eldra fólks. Flokkur sem hefur oft verið tengdur við spillingu, eiginhagsmunapot og sjálftöku. Flokkur sem er oft sagður hanga í pilsfaldinum á íhaldinu með enga sjálfstæða hugsun og þá einu von í brjósti að fá að hirða brauðmola af borði hinna. En er það virkilega svo? Það er ekki að ástæðulausu að Framsókn hefur oft verið í ríkisstjórnarsamstarfi en það er einmitt vegna þess að Framsókn og samvinnuhugsjónin hefur oft haft lykilhlutverk í að leiða saman ólík öfl. Ekkert hefst með öfgum til hægri eða vinstri, því þá færumst við sífellt fjær því lýðræði sem við Íslendingar viljum búa við.

Listi Framsóknar og frjálsra á Akranesi fyrir komandi bæjarstjórnarkosningar er mjög glæsilegur. Fólk úr öllum röðum samfélagsins og úr mörgum starfsstéttum. Það sem er einkar merkilegt að sjá er hversu stór hluti ungs fólks á sæti á listanum. 39% þeirra sem eiga sæti á listanum eru yngri en 35 ára, 61% undir 40 og 78% undir 43!! Þetta segir okkur að Framsókn er ekki einungis flokkur bænda og eldra fólks heldur flokkur sem höfðar til allra. Ungt fólk sem vill starfa í þágu okkar góða samfélags og setja sitt mark á stefnu bæjarstjórnar.

Kæri kjósandi, n.k. laugardag, 14.maí, hefur þú einstakt tækifæri til að hafa áhrif á hverjir koma til með að marka stefnu bæjarstjórnar næstu 4 árin. Ég vona að þú sért sama sinnis og við hjá Framsókn og frjálsum, að samvinna ólíkra afla sé nauðsynleg til að knýja fram sem besta niðurstöðu fyrir okkar góða bæ. Setjum X við B og gerum góðan bæ enn betri.

Liv Åse Skarstad
Höfundur er varabæjarfulltrúi og skipar annað sæti á lista Framsóknar og frjálsra fyrir komandi sveitarstjórnarkosningar.