Fyrirtæki í ferðaþjónustu telja sig í mestri þörf á Vesturlandi eftir að ráða faglært fólk til starfa. Ljósm. mm.

Fyrirtækjakönnun landshlutanna gefin út

Í liðinni viku var fyrirtækjakönnun landshlutanna gefin út fyrir árið 2022. Hún var framkvæmd á fyrri hluta ársins, í mánuðunum janúar til mars. Rúmlega 1600 fyrirtæki tóku þátt, þar af tæplega 200 af Vesturlandi. Könnunin var síðast framkvæmd haustið 2019 og svipaður fjöldi fyrirtækja tók þá þátt. Glæður eru fréttabréf SSV sem Vífill Karlsson hagfræðingur ritar, en þar var í síðustu viku fjallað um helstu niðurstöður könnunarinnar fyrir Vesturland. Hér verður gripið niður í Glæður.

Starfsmannamál og fjárfestingar

Á Vesturlandi höfðu hlutfallslega fleiri fyrirtæki hug á að ráða fólk til starfa en árið 2019. Vesturland var í meðallagi borið saman við aðra landshluta utan höfuðborgarsvæðisins. Það sama má segja um hug fyrirtækja á Vesturlandi til fjárfestinga. Þegar þessar tölur voru brotnar upp eftir atvinnugreinum á landinu öllu kom í ljós að mestur hugur var í fiskeldisgreinum, sístur í sjávarútvegi, á meðan ferðaþjónustan var þar mitt á milli. Eðlilega var viðsnúningurinn mestur hjá ferðaþjónustunni á milli kannana.

Horfur í efnahagsmálum

Fyrirtæki á Vesturlandi skáru sig ekki marktækt frá öðrum fyrirtækjum á landsvísu er varðar sýn þeirra á horfur í efnahagsmálum fyrir komandi vetur. Hins vegar voru þau mun bjartsýnni heldur en árið 2019 og þar var viðsnúningurinn einna mestur á landsvísu. Ferðaþjónustan skar sig úr hvað bjartsýni varðar og þá sérstaklega á Vesturlandi þar sem hún jókst mest á milli kannana. Ekki var ljóst hvað orsakaði þann landfræðilega mun.

Skapandi greinar

Minnst fer fyrir skapandi greinum á Vesturlandi í samanburði við aðra landshluta, ef marka má niðurstöðu fyrirtækjakönnunarinnar. Sú niðurstaða byggir á svörum við spurningunni: „Að hve miklu leyti hefur fyrirtæki þitt tekjur af menningu, listum, hönnun og öðrum hugverkum sem kalla mætti skapandi greinar?“ Einungis 3% af tekjum fyrirtækja á Vesturlandi byggja á skapandi greinum. Meðaltal könnunarinnar var 6%. Höfuðborgarsvæðið mældist hæst með 10% hlut skapandi greina. Það er lækkun á alla vegu frá árinu 2019 þegar Vesturland mældist með 4,5% og var þá nokkurn veginn fyrir miðju meðal landshlutanna.

Nýsköpun á Vesturlandi

Í könnuninni var spurt út í atriði sem tengjast nýsköpun. Þegar spurt var um vöruþróun komu fyrirtæki á Vesturlandi mjög svipað út og aðrir landshlutar. Hins vegar mældist Vesturland lægst þegar spurt var um tekjur af skapandi greinum, eins og áður sagði. Einnig þegar spurt var um tekjur af nýjum vörum og þjónustu.

Heildartekjur

Þegar spurt var hvort tekjur fyrirtækjanna væru meiri eða minni en á yfirstandandandi ári kom í ljós að þær voru lítið eitt meiri hjá fyrirtækjum á Vesturlandi. Hins vegar voru þær minni en hjá fyrirtækjum á höfuðborgarsvæðinu. Samanburður við síðustu könnun leiddi í ljós að svör við þessari spurningu voru hagfelldari á Vesturlandi en árið 2019.

Þörfin fyrir vel þjálfað starfsfólk

Þörf fyrirtækja Vesturlands fyrir faglært vinnuafl var í meðallagi snemma árs 2022 en jókst á milli kannana. 30% fyrirtækja taldi sig vera í þörf fyrir menntað vinnuafl. Athygli vakti hvað iðnaður á Vesturlandi skar sig úr hvað þetta varðar en hann var í sérstaklega mikilli þörf fyrir menntað vinnuafl en 50% allra fyrirtækja taldi sig vanta menntað fólk til starfa. Orðaský sem unnið var fyrir landið allt bendir til að þar sé sérstaklega vöntun á fólki með iðnmenntun. Í könnuninni var einnig spurt hvort fyrirtækin vantaði fólk með aðra færni sem fæst í hinu hefðbundna skólakerfi. Í ljós kom að 19% fyrirtækja á Vesturlandi vantaði slíkt starfsfólk. Það var heldur lægra hlutfall en á landinu öllu (24%) en ekki marktækt lægra. Ferðaþjónustan taldi sig í mestri þörf á Vesturlandi, af þeim þremur atvinnugreinum sem tölfræðilega var unnt að draga út (27%).

Hér má sjá skýrslu um fyrirtækjakönnunina í heild sinni:

thumbnail of Fyrirtaekjakonnun-landshlutanna-2022-endanleg

 

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Mokveiði í dragnót

Dragnótarbáturinn Steinunn SH frá Ólafsvík lenti heldur betur í mokveiði rétt undan Ólafsvík á sunnudaginn. Köstuðu skipverjar dragnótinni aðeins þrisvar... Lesa meira