Bjössi Lú byrjaður á sínu vegglistaverki

Listamaðurinn Björn Lúðvíksson, eða Bjössi Lú eins og hann kýs að kalla sig, vakti mikla athygli fyrir rúmum fimm árum þegar hann málaði Bowie vegginn við Kirkjubraut á Akranesi. Nýjasta verkefni hans verður að finna á vegg við Gamla Kaupfélagið en þar byrjaði hann í síðustu viku að mála vegg sem inniheldur að einhverju leyti tónlistarsögu Akraness. Tilefnið er 80 ára afmæli Akraneskaupstaðar en eins og margir hafa tekið eftir hafa nokkrir listamenn gert vegglistaverk undanfarið víða á Akranesi og hefur framtakið vakið mikla athygli. Bjössi Lú var á fullu við að mála vegginn sinn síðasta sunnudag þegar blaðamaður Skessuhorns kom við og settist niður með honum í smástund.

Hefur selt eitt og eitt málverk
Bjössi segir að sem krakki hafi hann verið að mála og teikna og hafi síðan þá alltaf annað slagið verið að mála og gera myndir og sé sjálflærður í faginu. „Þetta hefur allt komið með reynslunni, maður hefur kannski ekki gert allt of mikið af þessu og jafnvel viljað gera meira. Maður hætti þessu á tímabili en ég hef í gegnum tíðina verið að gera olíumálverk heima. Ég fór á námskeið hjá Bjarna Þór og Hrönn Eggerts fyrir löngu síðan og hef selt eitt og eitt málverk en hef aldrei verið mikið að auglýsa. Ég hafði ekkert stundað veggjamálun fyrr en eftir að David Bowie lést en þá var farið að gera svona Bowie veggi út um allan heim. Mér fannst tilvalið að gera einn svoleiðis á Akranesi sem ég fékk leyfi fyrir hjá Halla Búgí á Grjótinu. Bowie veggurinn hefur vakið mikla athygli síðustu ár og margir útlendingar sem keyra niður götuna verða alveg dolfallnir þegar þeir sjá hann.“

Einfaldaði verkið
Hvaðan er hugmyndin komin að nýja vegglistaverkinu? „Fyrsta hugmyndin að þessum vegg var að hafa bara nöfn og engar myndir en svo fór það smám saman að breytast. Nú eru þetta nánast allt myndir og nöfn hljómsveita, það þróaðist bara þannig. Þetta tengist allt tónlistarsögu Akraness og ég ætlaði að hafa fleiri tónlistarmenn í verkinu en síðan einfaldaði ég þetta. Við tókum þá ákvörðun að hafa þetta meira svona popp- eða rokktengingu í þessu, ekki kóra, sönghópa eða þjóðlagasveitir.“ Tónlistarmennirnir sem prýða vegginn eru til að mynda Margrét Rán úr hljómsveitinni Vök, Davíð Þór Jónsson, Anna Halldórsdóttir, hljómsveitin Worm Is Green, Þorsteinn Magnússon úr Eik, Karl Sighvatsson, Orri Harðarson, Valgerður Jónsdóttir, Geir Harðarson, Ragnar Sigurjónsson trommari úr Skuggum og Brimkló, Hallbjörg Bjarnadóttir, Andrea Jónsdóttir og Eðvarð Lárusson.

Mála þetta saman
Hvernig vinnur þú þetta? Ég og Halldór Randver Lárusson samstarfsfélagi minn vinnum þetta allt saman. Við finnum myndir af listamönnunum og síðan útfærir Halldór þetta en hann er grafískur hönnuður. Þá getum við málað þannig að þetta komi vel út eins og Bowie veggurinn sem hefði aldrei orðið svona flottur nema með hans hjálp. Ég kem með hugmyndirnar, hann útfærir þær þar til við erum báðir sáttir og síðan málum við þetta saman.“ Bjössi Lú segir að verkinu eigi að vera lokið fyrir byrjun Vökudaga sem hefjast í lok október. „Maður er að vinna á tólf tíma vöktum í Norðuráli og svo er ég að fara til Bandaríkjanna í tíu daga í október þannig að maður veit ekki alveg hvað verður en þetta ætti alveg að nást.“ segir hann að lokum.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Mokveiði í dragnót

Dragnótarbáturinn Steinunn SH frá Ólafsvík lenti heldur betur í mokveiði rétt undan Ólafsvík á sunnudaginn. Köstuðu skipverjar dragnótinni aðeins þrisvar... Lesa meira