Hleðslur hafa verið gerðar við heimreiðina að Staðarhóli. Þar er ætlunin að koma fyrir skiltum sem rekja sögu jarðarinnar og þá ekki síst að varpa ljósi á Sturlu Þórðarson sem þar bjó.

Sambland vígamennsku og bókmennta

Á morgun, laugardag, verður boðað til árlegrar Sturluhátíðar á Staðarhóli og í félagsheimilinu Tjarnarlundi í Saurbæ. Það er Sturlufélagið sem stendur að hátíðinni og Einar K. Guðfinnsson fyrrverandi alþingismaður er formaður þess. Hann segir samfélagið á Sturlungaöld hafa verið ótrúlega blöndu af vígamennsku og fræðimennsku. „Það var ein af þverstæðum 13. aldarinnar að hún einkenndist af einstæðum innanlandsófriði og var um leið blómaskeið sagnahefðarinnar. Þekktustu valdamenn Sturlungaaldar voru mikilhæfir sagnaritarar og Sturla Þórðarson hefur verið sagður merkasta skáld sinnar samtíðar á Íslandi en tók jafnframt þátt í sumum af blóðugustu bardögum þessarar aldar.“

Sturla var sannarlega uppi á Sturlungaöld. Hann fæddist á Staðarhóli árið 1214 og lést árið 1284. Hann var bróðursonur Snorra Sturlusonar og hefur fallið í skugga hans sem sagnaritari og skáld. Sturla bjó lengst af á Staðarhóli, þar bjuggu afkomendur hans og þar er hann jarðsettur. Hann var mikilhæfur sagnaritari, höfundur Íslendingasögu, einnar gerðar Landnámu og skrifaði norskar konungasögur. Þannig er verk hans ómetanleg heimild, bæði um sögu Íslands og Noregs. Hann hefur einnig verið nefndur sem höfundur þekktra Íslendingasagna eins og Eyrbyggju og Njálu þótt ekki hafi verið hægt að færa beinar sönnur á það.

Það var Svavar Gestsson heitinn sem fyrst hafði forgöngu um að Sturlu yrði minnst með verðugum hætti vestur í Dölum og var Sturlufélagið stofnað að hans frumkvæði árið 2018. Heimamenn og sveitarstjórn Dalabyggðar hafa stutt við verkefnið og eigendur Staðarhóls hafa látið félaginu í té afmarkaðan reit úr landi Staðarhóls.

Svavar sá hátíðina fyrir sér sem upphaf að lengra ferli þar sem Sturlu yrði minnst á verðugan hátt á Staðarhóli til framtíðar. Svavar lést fyrir aldur fram í ársbyrjun árið 2021 og hans verður sérstaklega minnst á hátíðinni á laugardaginn. Fyrst á dagskrá er stutt söguganga um Staðarhól klukkan 13, þar sem fornleifafræðingarnir Guðrún Alda Gísladóttir og Birna Lárusdóttir segja frá staðnum, staðháttum og rannsóknum sem þar fara fram. Að því búnu, kl. 14 hefst svo Sturluhátíð í Félagsheimilinu Tjarnarlundi með erindi Einars K. Guðfinnssonar, en aðrir sem koma fram eru Guðrún Alda Gísladóttir fornleifafræðingur, Einar Kárason rithöfundur og tónlistarfólkið Una Torfadóttir og Tumi Torfason.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Mokveiði í dragnót

Dragnótarbáturinn Steinunn SH frá Ólafsvík lenti heldur betur í mokveiði rétt undan Ólafsvík á sunnudaginn. Köstuðu skipverjar dragnótinni aðeins þrisvar... Lesa meira