Í öðru sæti á landsvísu yfir nythæstu kýrnar er bú þeirra Guðlaugar Sigurðardóttur og Jóhannesar Eybergs Ragnarssonar á Hraunhálsi í Helgafellssveit. Ljósm. úr safni Skessuhorns.

Afurðahæstu kúabúin á landinu

Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins hefur nú birt niðurstöðu skýrsluhalds kúabúa í landinu fyrir 2021. Nythæsta kýr landsins á síðasta ári var Skör nr. 1003 á bænum Hvammi í Ölfusi. Skör mjólkaði 13.760 kíló. Hæsta meðalnyt búa var á Búrfelli í Svarfaðardal hjá þeim Guðrúnu Marinósdóttur og Gunnari Þór Þórissyni. Nytin eftir hverja árskú hjá þeim var 8.908 kíló. Þetta er annað árið í röð sem þau verma efsta sætið. Í öðru sæti er bú þeirra Guðlaugar Sigurðardóttur og Jóhannesar Eybergs Ragnarssonar á Hraunhálsi í Helgafellssveit á Snæfellsnesi. Árin 2018–2020 hefur Hraunhálsbúið verið í þriðja sæti en færist nú sæti ofar á listanum. Kýrnar á Hraunhálsi mjólkuðu að meðaltali 8.664 kg. Loks í þriðja sæti á landsvísu er bú Guðjóns Björnssonar og Helgu Bjargar Helgadóttur á Syðri-Hömrum 3 í Ásahreppi.

Tvö kúabú önnur á Vesturlandi skiluðu yfir átta tonna meðalnyt eftir árskú. Það eru búin á Stakkhamri II í Eyja- og Miklaholtshreppi með 8.065 kg eftir árskú og Snorrastöðum í Borgarbyggð með 8.020 kg.

Kýr í mjaltabás á Snorrastöðum, þar sem þriðja hæsta meðalnyt búa á Vesturlandi var á síðasta ári. Ljósm. mm.

Líkar þetta

Fleiri fréttir