Kirkjan að Innri-Hólmi.

Framkvæmdir við Innra-Hólmskirkju að stöðvast vegna fjárskorts

Skessuhorn hefur af og til á liðnum vikum og misserum sagt frá umfangsmiklum framkvæmdum sem hófust í vor við Innra-Hólmskirkju í Hvalfjarðarsveit, sem jafnframt er einn elsti kirkjustaður landsins. Viðhaldi núverandi kirkju hefur í árafjöld verið ábótavant vegna fjárskorts. Framkvæmdir eru nú vel á veg komnar en hafa þó stöðvast vegna fjárskorts.

Forsaga málsins er að margir núverandi og fyrrverandi íbúar þessarar litlu sóknar, sem nú tilheyrir Garða- og Saurbæjarprestakalli og er þjónað frá Akranesi, höfðu miklar áhyggjur af stöðu mála og því að þessi 130 ára gamla kirkja væri að grotna niður. Eftir áeggjan nokkurra aðila tóku fermingarsystkini sem fermdust i kirkjunni árið 1963 málin í sínar hendur og hófu söfnun og síðan framkvæmdir við kirkjuna. Heildarkostnaðaráætlun er upp á 32,5 milljónir króna en af því er áætlaður ófyrirséður kostnaður um 6,5 millj. kr. Nú þegar er allt múrverk frágengið og faglega að því staðið en það er aðeins einn hluti verkefnisins. Viðgerð á þaki hófst um mánaðamótin júní/júlí, talsverðar fúaskemmdir komu þar í ljós en burðarvirki var í lagi. Þessari viðgerð ásamt viðgerð á turni er nú lokið og húsið tekið stakkaskiptum.

Þessu til viðbótar er stefnt að því að skipta um glugga og útihurð ásamt tilheyrandi umbúnaði en að auki þarf að koma ýmsu í viðunandi horf sem látið hefur á sjá og er afleiðing viðhaldsleysis. Þá er stefnt að því að endurbæta hitakerfi kirkjunnar, þ.e. að fjarlægja orkufreka rafhitun og setja upp varmadælubúnað.

Kristján S. Gunnarsson, einn aðstandenda framkvæmda við Innra-Hólmskirkju.

Að sögn Kristjáns S. Gunnarssonar, eins aðstandenda framkvæmdanna, hafa kostnaðaráætlanir staðist og einstaklingar og fyrirtæki verið rausnarleg í framlögum sínum, en betur má ef duga skal. Þá bendir Kristján á að einstakar gjafir og framlög til kirkjufélaga eru frádráttarbær frá tekjum af atvinnurekstri samkvæmt tekjuskattslögum, fari gjöf eða framlag ekki yfir 0,75% af árstekjum.

Kirkja var fyrst á Innra-Hólmi árið 1096

Innri-Hólmur er stórbýli, kirkjustaður og fornt höfuðból, skammt frá gangnamunna Hvalfjarðarganga. Þar bjó fyrstur Þormóður „hinn gamli“ Bresason er nam land á Akranesi ásamt bróður sínum, Katli Bresasyni. Þeir bræður komu frá Írlandi og voru kristnir en líklegt þykir að Þormóður hafi byggt kirkju á staðnum. Vitað er fyrir víst að kirkja var á Innra-Hólmi þegar tíundarlög voru sett árið 1096 og í Landnámabók (Sturlubók) er m.a. greint frá því að kirkja hafi verið byggð á leiði Ásólfs alskiks Konálssonar, landnáms- og einsetumanns, sem lagður var til grafar að Innra-Hólmi. Er Innri-Hólmur því einn elsti kirkjustaður landsins.

Sú kirkja sem stendur nú að Innra-Hólmi var reist árið 1891 og var hún vígð 27. mars 1892. Árni Þorvaldsson, bóndi og hreppstjóri á Innra-Hólmi, var helsti hvatamaður kirkjubyggingarinnar. Yfirsmiður við byggingu kirkjunnar var Jón Jónsson Mýrdal, smiður, bóndi og skáld. Jón var hinn mesti hagleiksmaður og ber útskurður inni í kirkjunni glöggt vitni um handbragð hans.

Í upphafi var kirkjan timburklædd en árið 1952 voru útveggir hennar notaðir sem steypumót og steyptir 17 cm þykkir veggir utan á hana. Á sama tíma voru bogadregnir gluggar smíðaðir í kirkjuna og forkirkja byggð. Árið 1963 fóru fram miklar endurbætur á kirkjunni, veggir voru klæddir sandblásnum panelborðum, gólf endurnýjað og nýir bekkir smíðaðir en lítið hefur verið um endurbætur á kirkjunni síðan þá. Hafa útveggir kirkjunnar smám saman sprungið og gefið sig með árunum og hefur kirkjan látið verulega á sjá. Innra-Hólmskirkja var friðuð hinn 1. janúar 1990 samkvæmt aldursákvæði þjóðminjalaga.

Betur má ef duga skal

Árgangur 1949 fermdist í kirkjunni árið 1963, rétt eftir að áðurnefndum viðgerðum á kirkjunni lauk. Árgangurinn hefur haft veg og vanda af því að koma framkvæmdum af stað á ný og hefur umsjón með verkinu. Söfnuður kirkjunnar hefur jafnframt staðið fyrir ýmiskonar fjáröflun fyrir framkvæmdunum. Með þeirri óeigingjörnu vinnu og gjöfum frá velunnurum kirkjunnar hefur tekist að safna fjármagni til að komast vel af stað með framkvæmdirnar. En betur má ef duga skal og vantar enn nokkuð uppá til að ljúka viðgerðum á kirkjunni.

Þeim sem styrkja vilja verkefnið er bent á söfnunarreikning kirkjunnar: 0326-22-1873 Kt. 660169-5129.

Líkar þetta

Fleiri fréttir