Sigurður Arnar Sigurðsson skólastjóri á lóð Grundaskóla. Ljósm. vaks.

„Framtíð Grundaskóla er björt“

Grundaskóli á Akranesi fagnaði 40 ára starfsafmæli miðvikudaginn 6. október síðastliðinn og ákvað blaðamaður Skessuhorns að kíkja á afmælisbarnið í tilefni dagsins. Grundaskóli var í upphafi stofnaður í anda nýrra hugmynda og var skólinn oft kenndur við umræðu um svokallað opið skólastarf. Slíkir skólar voru þekktir fyrir að brjóta upp bekkjastarf og halda teymisvinnu á lofti. Frá fyrsta degi hefur skólastarfið verið byggt á ákveðnum grunngildum sem eru samvinna, traust og virðing. Í dag eru um 120 starfsmenn við skólann og nemendur um 680.

Skólastjóri Grundaskóla er Sigurður Arnar Sigurðsson. Hann hefur verið skólastjóri frá árinu 2016 þegar Hrönn Ríkharðsdóttir lét af störfum. Sigurður Arnar hefur alls starfað í skólanum í 29 ár, sem kennari, deildarstjóri, aðstoðarskólastjóri og nú síðast sem skólastjóri. Blaðamaður spurði Sigurð Arnar fyrst hvað ætti að gera í tilefni afmælisins og sagði hann að skólinn hafi aðallega einbeitt sér að því að gleðja nemendur því þetta væri afmælið þeirra: „Við erum búin að brjóta upp starfið á afmælisdaginn og hafa þemasprell og frjálsan dag. Við erum búin að vera með samsöng og minnast sögunnar, hvernig skólinn hefur byggst upp og er að þróast. Við erum að fara í gríðarlega uppbyggingu á húsnæðinu. Búið er að taka ákvarðanir um ytra byrðið en nú er að hefjast vinna með það sem verður innan dyra. Við erum örlítið að kynda upp verkefnið sem er framundan og fá bæði nemendur og starfsmenn til að fara að hugsa um framtíðarskólann. Nemendur tóku virkan þátt í hönnun á Langasandsreitnum og eru búin að vera að vinna í ýmsu í skólahverfinu okkar. Fram á næsta vor verðum við mikið að stúdera hvernig við viljum hafa Grundaskóla sem er alltaf að breytast og nýbygginguna er ekki ennþá búið að kynna opinberlega. Þar er enn frekari útfærsla á breytingum og skólinn mun stækka töluvert.“

Nánar er rætt við Sigurð Arnar skólastjóra í Skessuhorni vikunnar.

Líkar þetta

Fleiri fréttir