Styrkja hringrásarhagkerfi í Borgarbyggð

Borgarbyggð og Umhverfis- og auðlindaráðuneytið hafa gert með sér samninga um styrkveitingar til annars vegar bættrar úrgangsþjónustu við frístundahús og hins vegar söfnunar brotajárns í dreifbýli í Borgarbyggð. Styrkurinn til úrgangsþjónustu nemur fjórum milljónum króna og styrkur til söfnunar brotajárns sexhundruð þúsund krónum.

Ráðuneytið auglýsti 18. mars eftir umsóknum lögaðila um styrki til verkefna sem stuðla að eflingu hringrásarhagkerfis hér á landi. Markmiðið með styrkveitingunum er samkvæmt samningunum að efla úrgangsforvarnir, bæta flokkun úrgangs, efla tækifæri til endurvinnslu úrgangs sem næst upprunastað, stuðla að aukinni endurvinnslu og annarri endurnýtingu og efla tækifæri til nýsköpunar og þróunar á búnaði sem dregur úr magni úrgangs eða auðveldar flokkun, endurvinnslu og aðra endurnýtingu. Styrkveitingunum er ætlað að styðja við nauðsynlega uppbyggingu innviða hringrásarkerfisins á Íslandi og nýsköpun og þróun sem stuðlað getur að innleiðingu þess hérlendis.

Líkar þetta

Fleiri fréttir