Mikilvægur sigur Skagamanna gegn Leikni

Skagamenn unnu gríðarlega mikilvægan sigur gegn Leikni, 3:1 í Pepsi Max deildinni á Akranesvelli í gær. Heimamenn urðu hreinlega að sigra í leiknum til þess að halda vonum sínum á lífi um að forðast fall úr Pepsi Max deildinni.

Heimamenn byrjuðu leikinn mjög vel og gáfu tóninn strax á fimmtu mínútu en þá átti Gísli Laxdal Unnarsson hörkuskot í hliðarnetið úr þröngu færi. Það var síðan á 24. mínútu leiksins sem Skagamenn náðu sanngjarnt forystunni. Þá fengu þeir hornspyrnu sem Brynjar Snær Pálsson lyfti inn á vítateiginn og fór boltinn í Leiknismann og af honum til Viktors Jónssonar sem skallaði boltann í fjærhornið. Aðeins þremur mínútum síðar fengu Skagamenn vítaspyrnu þegar Viktor Jónsson var togaður niður í vítateignum af varnarmanni Leiknis. Steinar Þorsteinsson steig á punktinn og skoraði örugglega úr spyrnunni og staðan orðin 2:0 og var þannig í hálfleik.

Leiknismenn komu ákveðnir til leiks í síðari hálfleik og náðu að minnka muninn þegar átta mínútur voru liðnar af hálfleiknum. Þá átti Brynjar Hlöðversson sendingu inn í vítateig Skagamanna og boltinn barst á Daníel Finns Matthíasson sem þrumaði honum viðstöðulaust í fjærhornið, óverjandi fyrir Árna Marinó í markinu. Eftir markið gerðu Leiknismenn harða hríð að marki Skagamanna en heimamenn stóðust áhlaupið og náðu að skora þriðja markið á 69. mínútu og tryggja sigurinn. Þá tók Gísli Laxdal Unnarsson hornspyrnu sem barst til Viktors Jónssonar sem átti skot að marki en þar var Hákon Ingi Jónsson og náði hann að stýra boltanum í markið nánast af marklínunni. Fjórum mínútum eftir þriðja markið komst Aron Kristófer Lárusson einn inn fyrir vörn Leiknis en Gay Smith náði að verja með góðu úthlaupi. Leikurinn fjaraði síðan út og Skagamenn fögnuðu innilega mikilvægum sigri.

Bestu leikmenn Skagamanna í leiknum voru þeir Ísak Snær Þorvaldsson, sem var öflugur á miðjunni og svo þeir Óttar Bjarni Guðmundsson og Wout Droste í vörninni. Þá átti Viktor Jónsson einnig góðan leik í sókninni. Skoraði eitt mark og kom einnig að hinum tveimur mörkunum.

Jóhannes Karl Guðjónsson sagði í viðtölum eftir leikinn að það væri sannarlega góð tilfinning að ná þessum sigri. Strákarnir hefðu ætlað sér sigur og hefðu uppskorið með góðri baráttu. Fram undan eru baráttuleikir sem byrja með bikarleiknum gegn ÍR á miðvikudaginn og svo tveir úrslitaleikir gegn Fylki og Keflvíkingum. „Við ætlum okkur sigur í þessum leikjum,“ sagði Jóhannes Karl.

Næsti leikur Skagamanna er gegn ÍR eins og áður sagði á miðvikudaginn í Breiðholtinu og svo gegn Fylki sunnudaginn 19. september á Akranesvelli.

Líkar þetta

Fleiri fréttir