Skallagrímur sigraði á heimavelli

Skallagrímur lagði Keflvíkinga þegar liðin mættust í Borgarnesi í Domino‘s deild kvenna í körfubolta í gærkvöldi, 76-64.

Fyrstu stig leiksins komu eftir aðeins þrjár sekúndur þegar Keira Robinson átti tveggja stiga körfu. Bæði lið komu sterk inn í fyrsta leikhluta og skiptust á um að leiða. Skallagrímskonur voru með 15 stig gegn 13 stigum Keflvíkinga þegar leikhlutanum lauk. Annar leikhluti var hnífjafn og fyrstu átta mínútur leikhlutans voru aldrei meira en tvö stig sem skildu liðin af. Heimakonur áttu þá góðan leik og komust fimm stigum yfir þegar gengið var til hálfleiks, 35-30.

Eftir hléið voru Skallagrímskonur með leikinn í höndum sér. Þær leiddu leikinn og juku forskot sitt hægt og rólega og sigruðu örugglega með 76 stigum gegn 64.

Nikita Telesford var atkvæðamest í liði Skallagríms með 17 stig og níu fráköst, Sigrún Sjöfn Ámundadóttir skoraði 15 stig, tók sjö fráköst og gaf fimm stoðsendingar, Emla Kristínardóttir átti 13 stig og sjö fráköst, Keira Robinson var með ellefu stig, fimm fráköst og níu stoðsendingar, Gunnhildur Lind Hansdóttir skoraði sjög stig og tók sjö fráköst, Maja Michalska átti sex stig, Sanja Orozovic skoraði fimm stig og Karen Munda Jónsdóttir skoraði tvö stig.

Í liði Keflavíkur var Anna Ingunn Svansdóttir atkvæðamest með 27 stig, Daniela Wallen Morillo var með 20 stig, 20 stoðsendingar og sjö fráköst, Katla Rún Garðarsdóttir skoraði fimm stig, Anna Lára Vignisdóttir átti fjögur stig, Salbjörg Ragna Sævarsdóttir og Hjördís Lilja Traustadóttir skoruðu þrjú stig hvor og Emelía Ósk Gunnarsdóttir átti tvö stig.

Skallagrímur er í fimmta sæti deildarinnar með 14 stig, sex stigum á eftir Fjölni í sætinu fyrir ofan og fjórum stigum meira en Breiðablik í sætinu fyrir neðan.‘

Næsti leikur Skallagríms er gegn KR í Vesturbænum á laugardaginn, 24. apríl, kl 16:00.

Líkar þetta

Fleiri fréttir