Peningar. Ljósm. úr safni/ mm.

Heimild til að taka út séreignarsparnað framlengd um ár

Frumvarpi fjármálaráðherra um breytingu á ýmsum lögum til að mæta efnahagslegum áhrifum heimsfaraldurs kórónuveiru var dreift á Alþingi í vikunni.

Í frumvarpinu er lagt til að heimild til úttektar á séreignarsparnaði taki gildi að nýju. Lagt er til að rétthöfum séreignarsparnaðar verði heimilt að sækja um að fá greiddan út séreignarsparnað upp að ákveðnu marki sem almennt er eingöngu laus til útborgunar við 60 ára aldur, örorku eða fráfall rétthafa.

Í frumvarpinu er einnig lagt til að sömu viðmið gildi um umsóknartímabil og úttektarfjárhæð og giltu á árinu 2020. Þannig verði heimilt að sækja um úrræðið út árið 2021 og samanlögð fjárhæð geti numið allt að 12 millj. kr. sem greiddar verði út á 15 mánaða tímabili frá því að umsókn barst vörsluaðila.

Þá er í frumvarpinu að finna margvíslegar aðgerðir af hálfu stjórnvalda til að létta undir með rekstraraðilum í kórónuveirufaraldrinum. Má þar nefna niðurfellingu álags á virðisaukaskatt, frestun á greiðslu álagðs tekjuskatts 2020, tímabundna niðurfellingu gistináttaskatts og lækkun sérstaks skatts á fjármálafyrirtæki. Verði frumvarp þetta að lögum bætist við ívilnandi úrræði sem er til þess fallið að auka möguleika lögaðila og einstaklinga í atvinnurekstri til að halda velli þegar efnahagslífið kemst á réttan kjöl.

Í greinargerð með frumvarpinu segir ennfremur: „Frumvarpið er ekki á þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar fyrir yfirstandandi löggjafarþing. Frumvarpið er hluti af viðbrögðum stjórnvalda við efnahagslegum afleiðingum heimsfaraldurs kórónuveiru en náið hefur verið fylgst með horfum á því sviði. Framhald á fleiri úrræðum er til skoðunar en talið var tímabært að leggja fram frumvarp um þau atriði sem í frumvarpinu felast. Frumvarpið var ekki kynnt í samráðsgátt stjórnvalda sökum þess hve áríðandi þótti að leggja það fram á Alþingi. Samráð var haft við Skattinn við vinnslu þess.“

Frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum til að mæta efnahagslegum áhrifum heimsfaraldurs kórónuveiru (greiðsludreifing staðgreiðslu og tryggingagjalds, úttekt séreignarsparnaðar).

Líkar þetta

Fleiri fréttir