Kleppjárnsreykir í Reykholtsdal. Ljósm. Mats Wibe Lund,.

Mygla staðfest í grunnskólahúsi á Kleppjárnsreykjum

Á fundi byggðarráðs Borgarbyggðar í gær var kynnt skýrsla verkfræðistofunnar Eflu um úttekt á rakavandamálum í húsnæði Grunnskóla Borgarfjarðar á Kleppjárnsreykjum. Samkvæmt heimildum Skessuhorns liggur fyrir að nokkrir nemendur skólans hafa sýnt einkenni sem mögulega megi rekja til myglu í húsnæðinu og þá eru jafnvel dæmi um að foreldrar hafi fært börn sín í annan skóla af þeim sökum. Sveitarstjórn ákvað fyrr í vetur að festa kaup á færanlegum skólastofum á Kleppjárnsreykjum til að forða megi nemendum úr mögulega sýktu húsnæði. Skýrsla Eflu er ekki birt með fundargerð byggðarráðs í gær, en í bókun af fundinum segir að sveitarstjóra sé falið að undirbúa kynningu; „á mótvægisaðgerðum fyrir starfsfólki og foreldrum grunnskólabarna í Kleppjárnsreykjadeild Grunnskóla Borgarfjarðar,“ eins og segir í fundargerð.

Skessuhorn hefur ekki, þrátt fyrir beiðni þar um, fengið skýrslu Eflu í hendur. Davíð Sigurðsson sveitarstjórnarfulltrúi kveðst í samtali við Skessuhorn, hafa kynnt sér innihald skýrslunnar og staðfestir að veruleg rakavandamál séu í skólahúsinu og að mygla hafi greinst í þeim sýnum sem Efla tók. „Þetta er svört skýrsla um ástand húsakosts á Kleppjárnsreykjum og þar hefur mygla verið greind. Það er í mínum huga ljóst að grípa verður til tafarlausra aðgerða til að tryggja að starfsfólk og nemendur skólans verði ekki gert að starfa áfram í heilsuspillandi húsnæði,“ segir Davíð. Aðspurður kveðst hann ekki þekkja skýringu á því af hverju skýrslan hafi ekki verið birt sem fylgigagn með fundargerð byggðarráðs.

Í bókun byggðarráðs segir: „Umsjónarmanni eignasjóðs er falið að gera mat á því hvaða endurbætur þurfi að gera á húsnæðinu til frambúðar, auk kostnaðaráætlunar, og leggja fram á næsta fundi byggðarráðs.“

Líkar þetta

Fleiri fréttir