
Elskar að elda góðan mat og baka allskyns góðgæti
„Ég hef haldið úti samfélagsmiðlinum Matarlyst á Facebook, Instagram og Snapchat frá því árið 2018. Ég og Elísabet systir mín höfum verið í þessu saman en Elísabet hefur reyndar verið í öðru að snúast að undanförnu en vonandi kemur hún aftur með í þetta með mér sem fyrst,” segir Ragnheiður Stefánsdóttir á Akranesi í samtali við Skessuhorn. „Matarlyst hefur vaxið jafnt og þétt og ég á flottan hóp fylgenda. Þetta hófst þannig að ég var alltaf að snappa af og til á mínu snappi í mörg ár af því sem ég var að gera hverju sinni. Svo var fólk farið að biðja mig um uppskriftir og ég lét bara vaða og opnaði snappið og setti í framhaldinu uppskriftir inn á Facebook og Instagram og nota ég þá miðla mikið í dag. En með þessu fór ég út fyrir þægindarammann að mér fannst en svo voru undirtektir mjög góðar og ég efldist við það og fyrir mér í dag er þetta svo sjálfsagt og auðvelt. En það sem hefur reynst mér svo vel er að ég reyni bara að vera ég sjálf og hafa trú á því sem ég er að gera. Fylgja hjartanu og elta draumana.“
Nánar er rætt við Ragnheiði í Skessuhorni vikunnar, þar sem hún deilir jafnframt með lesendum girnilegum uppskriftum að mat og bakkelsi.