
Eyjamenn sýna mikið göfuglyndi og vilja lána nýja Herjólf
Íbúar í Vestmannaeyjum hafa stungið upp á því að nýi Herjólfur verði lánaður til að halda megi uppi siglingum milli Brjánslækjar og Stykkishólms. Í hádegisfréttum RUV var sagt frá grein sem Alfreð Alfreðsson leiðsögumaður birti á vefsíðunni Eyjar.net. Þar segir Alfreð að Vestmanneyingar hafi oft fengið Baldur að láni þegar Herjólfur hefur verið í skoðun, nú sé komið að því að endurgjalda greiðann. Þeirri skoðun er einnig fleygt að gamli Herjólfur henti síður til þessara siglinga á Breiðafirði, þar sem hann risti dýpra og komist síður að bryggju í Stykkishólmi og á Brjánslæk. Nýi Herjólfur myndi henta mun betur við þær aðstæður.
Eins og lesendur þekkja bilaði aðalvél Baldurs, sem jafnframt er eina vél skipsins, þegar hann var á siglingu frá Brjánslæk síðastliðinn fimmtudag. Tók það 26 tíma að koma skipinu til hafnar og máttu farþegar og áhöfn þola talsvert hnjask um borð þar sem veður var slæmt á firðinum.
Samkvæmt frétt Ríkisútvarpsins hafa Vestmannaeyingar almennt tekið vel í hugmyndina. Bent hefur verið á að ekkert sé því til fyrirstöðu að Herjólfur III geti haldið upp siglingum um Landeyjahöfn, enda sé hún með besta móti. „Ég leyfi mér að skora á bæjaryfirvöld og ríkið að bregðast skjótt við og lána Vestfirðingum Herjólf svo siglingar um Breiðafjörð verði með eðlilegum hætti þangað til Baldur kemur tvíefldur aftur,“ skrifaði Alfreð Alfreðsson Eyjamaður.