Lónið eftir hlaupið, en myndin var tekin 22. ágúst 2020. Hér er horft til austurs meðfram jökuljaðrinum. Eiríksjökull í baksýn. Ljósm. Andri Gunnarsson.

Telja líkur á fleiri hlaupum úr Hafrafellslóni í Langjökli

Veðurstofa Íslands hefur gefið út skýrslu um jökulhlaupið sem varð úr Hafrafellslóni í vestanverðum Langjökli 17. ágúst 2020. Lón þetta hefur verið að myndast frá síðustu aldamótum vegna hörfunar jökulsins. Hlaupið úr lóninu leitaði sér fyrst farvegs í Svartá undir Hafrafelli, við vesturjaðar Langjökuls og þaðan út í Hvítá. Íbúar í uppsveitum Borgarfjarðar urðu varir við það 17. ágúst að hlaup væri hafið í farvegi Hvítár og gætti áhrifa þess alla leið niður Hvítá og var raunar einnig sjáanlegt á firðinum þar sem leirburður óx til muna. Hlaupið fyllti farveg árinnar undir Hvítárbrú í Húsafellsskógi ofanverðum en neðst í Hvítársíðu hækkaði um einn metra þannig að eðja barst upp á engjar. Í atganginum drapst eitthvað af fiski í ánni, meðal annars lax sem skolaði upp á áreyrar neðan við Hraunfossa. Heildarrúmmál hlaupvatnsins er áætlað 3,4 milljónir rúmmetra og verulegt magn af hlaupseti barst fram. Samkvæmt gögnum úr vatnshæðarmæli við Kljáfoss nam hámarksrennsli í hlaupinu um 260 rúmmetrum.

Sérfræðingar á Veðurstofunni og aðrir skýrsluhöfundar segja hættu á fleiri hlaupum úr lóninu á komandi árum. Í skýrslunni er bent á að ísinn sem liggur að lóninu sunnanverðu hafi þynnst að jafnaði um þrjá metra á ári og getur vatnsþrýstingur lyft jöklinum svo hlaup hefjist með litlum fyrirvara þegar vatnsborð í lóninu rís nógu hátt. Hætta er því talin á fleiri hlaupum úr lóninu á komandi árum og er lagt til að lónið verði vaktað að sumarlagi með athugun tunglmynda. Einnig segir í skýrslunni að æskilegt væri að setja upp vefmyndavél og e.t.v. vatnshæðarmæli við lónið þegar hlaup er talið nálgast.

Skýrsluna í heild má finna hér

Myndin var tekin af Hvítárbrú ofantil við Húsafellsskóg daginn eftir að hlaupið fór í ána. Á myndinni má glöggt sjá að árfarvegurinn náði nánast upp í brúargólfið þegar mest var. Ljósm. Skessuhorn/mm.

Líkar þetta

Fleiri fréttir