Frystihúsið opnað á Akranesi á laugardaginn

Frystihúsið, ný ísbúð, kaffihús og sælkerastund, verður opnað við Akratorg á Akranesi næstkomandi laugardag. Í samtali við eigendur staðarins kom fram að hugmyndin væri að stuðla að því að Akranes endurheimti fyrri frægð og stolt sitt yfir gömlu frystihúsum bæjarins og að íbúar þurfi ekki lengur að sækja þau grundvallar mannréttindi sín til Reykjavíkur að komast í góða ísbúð eða að fá dýrindis lífrænt kaffi. Gömlu frystihúsin á Akranesi hafa undanfarin ár verið áminning um „heimsveldið“ Akranes en vekja kannski upp í dag söknuð og „Nostalgíu“ tilfinningar hjá mörgum Skagamönnum. Ætlunin með öðruvísi skilgreiningu á Frystihúsinu á Akranesi sé að færa stemninguna í bænum til betri vegar, rifja upp gamla glæsta tíma í sögu Skagamanna með ís, sjeik, boozt og kaffi undir vakt sjómannsins á fallegu Akratorgi.

Veitingar og góðgæti Frystihússins verða í anda þekktra og vinsælla staða á borð við Joe and The Juice, Huppu Ís, OmNom og Ísey skyrbar auk þess sem lögð verður áhersla á hágæða lífrænt kaffi. Í auglýsingu sem birtist í Skessuhorni er rætt um svalari ís, betra kaffi og frábæra upplifun. Þá segja eigendurnir að ætlunin sé að nýta svæðið framan við staðinn og Akratorg fyrir ýmsa lifandi viðburði en fyrsti viðburðurinn verður opnunarhátíð á laugardaginn og hefst hún kl. 13:00 og stendur til kl. 16:00. Þar fá allir kátir krakkar yngri en 12 ára gefins ís auk þess sem leynigestur mætir á staðinn. Jafnframt er bent á að nánari upplýsingar muni birtast á Facebook síðu Frystihússins.

Líkar þetta

Fleiri fréttir