Gísli Laxdal Unnarsson var besti leikmaður ÍA í leiknum. Ljósm. úr safni/ fotbolti.net

Öruggur sigur Skagamanna gegn Vestra í Lengjubikar

Skagamenn unnu öruggan 4:1 sigur gegn Vestra frá Ísafirði í Lengjubikarnum í fótbolta. Spilað var í Akraneshöllinni síðastliðið föstudagskvöld. Eftir góða byrjun Skagamanna náði Vestri snöggri skyndisókn á 9. mínútu leiksins og Casper Gandrup Hansen skoraði fallegt mark í fjærhornið og Vestri kominn yfir í leiknum. Skagamenn svöruðu strax og aðeins tveimur mínútum síðar fengu þeir dæmda vítaspyrnu eftir að brotið var á Elias Tamburini. Arnar Már Guðjónsson steig á vítapunktinn, en frekar máttlítið skot fyrirliðans var auðveldlega varið af Brenton Muhammad markverði Vestra. Arnar Már náði þó frákastinu en skaut yfir markið.

En Skagamenn náðu verðskuldað að jafna metin á 23. mínútu þegar Viktor Jónsson skoraði með skalla eftir hornspyrnu. Á lokamínútu fyrri hálfleiks komust Skagamenn loks yfir í leiknum þegar besti leikmaður Skagamanna, Gísli Laxdal Unnarsson, skoraði með góðu skoti sem hafði viðkomu í varnarmanni gestanna og breytti um stefnu áður en hann hafnaði í netinu.

Skagamenn byrjuði síðari hálfleikinn af krafti og gengu frá leiknum með tveimur mörkum þeirra Arons Kristófer Lárussonar eftir atgang í vítateignum og Guðmundar Tyrfingssonar eftir hornspyrnu. Mörkin komu með mínútu millibili í upphafi síðari hálfleiks.

Eftir þetta hægðist á leiknum og bæði lið gerðu nokkrar breytingar og leyfðu yngri mönnum að spreyta sig. En í upphafi síðari hálfleiks meiddist Viktor Jónsson framherji Skagamanna eftir að brotið var á honum og var hann studdur af leikvelli. Er vonandi fyrir Skagamenn að meiðslin séu ekki alvarleg. Mega ekki við því að missa einn sinn besta leikmann í meiðsli.

Tveir síðustu leikir Skagamanna í riðlakeppni Lengjubikarsins verða í næstu viku. Gegn Gróttu í Akraneshöllinni 9. mars og loks spilar ÍA gegn Keflavík í Reykjaneshöllinni 12. mars nk.

Líkar þetta

Fleiri fréttir