Rebekka Rán Karlsdóttir í baráttunni. Ljósm. sá

Toppliðið of stór biti fyrir Snæfell

Topplið Vals var of stór biti fyrir Snæfell þegar liðin mættust í Stykkishólmi í Domino‘s deild kvenna í gær. Bæði lið mættu sterk til leiks og Snæfell náði að halda í við gestina í fyrsta leikhluta, sem lauk með fimm stiga forystu gestanna, 22-27. Leikurinn var hraður og þó gestirnir hafi fljótlega náð yfirhöndinni í leiknum börðust Hólmarar og hleyptu þeim aldrei langt á undan sér. Of mörg skot fóru þó forgörðum hjá Snæfelli og lokatölur í leiknum 69-81 fyrir Valskonum eftir hörkuleik.

Í liði Snæfells var Haiden Denise Palmer atkvæðamest með 21 stig, 15 fráköst og átta stoðsendingar, Tinna Guðrún Alexandersdóttir skoraði 16 stig, Anna Soffía Lárusdóttir skoraði 15 stig, Emese Vida átti tólf stig og 15 fráköst og Rebekka Rán Karlsdóttir skoraði fimm stig.

Í liði Vals var Dagbjört Dögg Karlsdóttir atkvæðamest með 24 stig og fimm stoðsendingar, Kiana Johnson skoraði 15 stig, gaf átta stoðsendingar og tók átta fráköst, Guðbjörg Sverrisdóttir var með ellefu stig og fimm fráköst, Eydís Eva Þórisdóttir og Nína Jenný Kristjánsdóttir voru með níu stig hvor, Ásta Júlía Grímsdóttir skoraði átta stig og tók tólf fráköst og Hildur Björg Kjartansdóttir skoraði fimm stig og tók ellefu fráköst.

Snæfell situr nú í sjöunda og næst neðsta sæti deildarinnar með fjögur stig, tveimur stigum meira en KR sem situr á botninum, og tveimur stigum á eftir Breiðabliki í sætinu fyrir ofan. Næst leikur Snæfell við Breiðablik í Smáranum á miðvikudaginn, 10. mars.

Líkar þetta

Fleiri fréttir