Loðnuveiðiskipin eru í hnapp á afmörkuðu svæði suður af Arnarstapa (innan rauða hringsins). Skjáskot af Marine Traffic/frg.

Venus með 2000 tonn af loðnu eftir hálfan sólarhring

Að minnsta kosti níu loðnuveiðiskip eru nú að veiðum um 14 sjómílum sunnan við Arnarstapa á Snæfellsnesi, eða í um 40 sjómílna siglingu frá Akranesi. Nokkur skip voru að loðnuveiðum um helgina á Breiðafirði, skammt norður af Snæfellsbæ, en hafa fært sig á miðjan Faxaflóa.

Á Akranesi hafði loðnu ekki verið landað í þrjú ár þegar Venus NS-150, sem er í eigu Brims hf., kom með 520 tonn til löndunar seint á mánudagskvöld. Um var að ræða mjög góða loðnu sem fékkst í Breiðafirði. Hrognafylling var um 26% og er nú unnið að frystingu hrogna á Akranesi og Vopnafirði. Var magninu í þessari fyrstu löndun stillt í hóf til þess að færi gæfist á að prófa búnað sem hefur staðið óhreyfður síðan 2018. Venus sigldi aftur á miðin um hádegið í gær og nú hálfum sólarhring síðar, eða laust eftir miðnætti í nótt, var Venus kominn aftur með um 2.000 tonn og bíður nú löndunar á Akranesi. Aflinn fékkst í þremur köstum. Áætlað er að löndun úr Venusi taki allan daginn og vel það og er áætlað að skipið sigli út annað kvöld. Ekki eru fleiri staðfestar landanir hjá Akraneshöfn, samkvæmt upplýsingum úr hafnarskúrnum nú rétt í þessu.

Venus bíður nú löndunar með um 2000 tonn sem fékkst í þremur köstum í gær. Ljósm. mm.

Líkar þetta

Fleiri fréttir