Mynd tekin af göngustíg upp í bjargið en þar er hægt að fylgjast með fuglinum í návígi. Ljósm. mm.

Látrabjarg er nú friðlýst

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, hefur skrifað undir plagg til friðlýsingar Látrabjargs. Viðstaddir undirskriftina voru fulltrúar Bjargtanga, félags land- og sumarhúsaeigenda á Hvallátrum við Látrabjarg, sem friðlýsingin hefur verið unnin í nánu samstarfi við. Látrabjarg er eitt stærsta fuglabjarg Evrópu og flokkast sem alþjóðlega mikilvægt fuglasvæði. Það var árið 2004 sem Alþingi samþykkti þingsályktun um náttúruverndaráætlun 2004-2008, en svæðið heyrir undir áætlunina og þar með var samþykkt að unnið yrði að friðlýsingu svæðisins.

Náttúrufegurð er mikil á svæðinu og líffræðileg fjölbreytni þess einnig. Markmið friðlýsingarinnar er að vernda sérstætt og fjölbreytt lífríki svæðisins og búsvæði fugla. Þar er að finna fjölskrúðugt fuglalíf sem byggist m.a. á fjölbreyttu fæðuframboði. Á svæðinu er mesta sjófuglabyggð landsins, til að mynda stærsta þekkta álkubyggð í heimi. Fjölmargar tegundir fugla verpa á svæðinu, þar á meðal tegundir sem eru á válista, svo sem lundi og álka. Við Látrabjarg er líka að finna búsetu- og menningarminjar. Þá speglast jarðsaga Vestfjarða í bjarginu.

Líkar þetta

Fleiri fréttir