Góður sigur Borgnesinga í Hveragerði

Skallagrímur vann Hamar með tveimur stigum þegar liðin mættust í Hveragerði í 1. deild karla í körfubolta á föstudaginn. Heimamenn voru með yfirhöndina í fyrri hálfleik en Skallagrímsmenn hleyptu þeim ekki lengt frá sér. Þegar gengið var til klefa í hálfleik var staðan 52-46 fyrir Hamarsmönnum. Lítið markvert gerðist í þriðja leikhluta, heimamenn héldu áfram að leiða en Skallagrímur fylgdi fast á eftir og þegar þriðja leikhluta lauk var staðan 75-70 heimamönnum í vil. Það var svo í fjórða leikhluta sem dró til tíðinda. Gestirnir fóru upp um gír og komust stigi yfir þegar Kristján Örn Ómarsson átti þriggja stiga skot sem fór í gegnum netið þegar tæpar átta mínútur voru eftir af leiktímanum. Leikurinn var stál í stál það sem eftir var en Skallagrímsmenn náðu að lokum sigrinum á síðustu mínútu leiksins, 93-95.

Í liði Skallagríms var Marques Oliver atkvæðamestur með 26 stig og 16 fráköst, Kristján Örn Ómarsson skoraði 21 stig, Marinó Þór Pálmason skoraði 17 stig og tók sex fráköst, Eyjólfur Ásberg Halldórsson skoraði 14 stig og tók níu fráköst, Benedikt Lárusson var með sjö stig og fimm stoðsendingar, Davíð Guðmundsson skoraði fimm stig, Kristófer Gíslason skoraði þrjú stig og Ólafur Þorri Sigurjónsson skoraði tvö stig.

Í liði Hamars var Michael Maurice Philips stigahæstur með 29 stig og ellefu fráköst, Ragnar Jósef Ragnarsson með 21 stig, Jose Medina Aldana skoraði tólf stig og gaf tólf stoðsendingar, Daníel Sigmar Kristjánsson var með tólf stig, Ragnar Magni Sigurjónsson var með átta stig, Ruud Lutterman var með sjö stig og sjö fráksöt og Pálmi Geir Jónsson skoraði fjögur stig.

Skallagrímur situr nú í sjötta sæti deildarinnar með tíu stig. Næsti leikur liðsins er við Hrunamenn í Borgarnesi á föstudaginn, 5. mars, kl. 19:15.

Líkar þetta

Fleiri fréttir