Öruggur sigur Skallagrímskvenna

Skallagrímur sigraði KR örugglega þegar liðin mættust í Borgarnesi í Domino‘s deild kvenna síðastliðinn miðvikudag, 67-53. Skallagrímskonur náðu yfirhöndinni strax í fyrsta leikhluta og leiddu með átta stigum þegar annar leikhluti hófst, 19-11. Áfram héldu heimakonur að stjórna inni á vellinum og voru í þægilegri ellefu stiga forystu þegar flautað var til hálfleiks, 33-22. Lítið markvert gerðist í síðari hálfleik. KR-ingar virtust ekki eiga nein ráð gagnvart sterku liði Skallagríms, sem hélt áfram að bæta í forystuna í þriðja leikhluta og staðan 59-39 þegar lokaleikhlutinn hófst. Þá náðu gestirnir aðeins að saxa á forystu heimakvenna en komust þó ekki nær en 14 stig í stöðunni 67-53, sem voru einmitt lokatölur leiksins.

Í liði Skallagríms var Sanja Orozovic atkvæðamest með 18 stig, tíu fráköst og sex stoðsendingar. Nikita Telesford skoraði 16 stig, tók níu fráköst og gaf fimm stoðsendingar, Embla Kristínardóttir var með 12 stig, fimm fráköst og fimm stoðsendingar, Sigrún Sjöfn Ámundadóttir skoraði níu stig og tók fimm fráköst, Maja Michalska skoraði sjö stig og tók átta fráköst, Arnina Lena Runarsdottir skoraði þrjú stig og Gunnhildur Lind Hansdóttir skoraði tvö stig.

Í liði KR var Taryn Ashley Mc Cutcheon stigahæst með 17 stig og níu stoðsendingar.

Skallagrímur er nú í fimmta sæti deildarinnar með átta stig. Næsti leikur liðsins er við Val á heimavelli næsta sunnudag, 21. febrúar, kl. 16:00.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Með sjaldgæfan blóðtappa

Skagamaðurinn Oliver Stefánsson, sonur Stefáns Þórs Þórðarsonar og Magneu Guðlaugsdóttur, og varnarmaður sænska úrvalsdeildarfélagsins Norrköping, verður frá næsta hálfa árið... Lesa meira