Leikir karlalandsliðsins í fótbolta seldir til streymisveitu

Allir leikir íslenska karlalandsliðsins í fótbolta frá árinu 2022 til og með 2028 verða sýndir á streymisveitunni Viaplay. Frá því var greint á fréttavef Ríkisútvarpsins að norræna fjölmiðlasamsteypan NENT Group hafi samið við UEFA, Evrópska knattspyrnusambandið, og þar með tryggt sér sýningarrétt á öllum leikjum íslenska karlalandsliðsins í fótbolta.

RÚV hefur undanfarið sýnt alla leiki íslenska karlalandsliðsins í undankeppni EM og HM en Stöð 2 Sport hefur haft sýningarrétt á Þjóðadeild Evrópu. Leikir Íslands í undankeppni fyrir HM 2022 og HM 2022 verða þó sýndir á RÚV þar sem RÚV var búið að tryggja sýningarrétt á þeim leikjum. Stöð 2 Sport er enn með sýningarréttinn á EM 2020 sem átti að fara fram síðasta sumar en var frestað vegna COVID-19 þar til næsta sumar.

RÚV hefur eftir Anders Jensen, forstjóra og framkvæmdastjóra NENT Group, að Viaplay vilji vera leiðandi íþróttastöð í þeim löndum sem veitan sendir út í. Viaplay er ekki aðgengilegt á myndlyklum en með áskrift er hægt að streyma efni þeirra í snjallsjónvarp, í gegnum Apple TV eða sambærilegan búnað eða í símum og tölvum, ekki ósvipað og streymisveitan Netflix. Þetta er í fyrsta sinn sem UEFA gerir svona einkaréttarsamning við streymisveitu. Samkvæmt netsíðu Viaplay kostar mánaðaráskrift af efni streymisveitunnar 1.599 krónur með íþróttum.

Líkar þetta

Fleiri fréttir