Teitur Björn Einarsson.

Teitur Björn sækist eftir þingsæti

Teitur Björn Einarsson, lögmaður og varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi; „gefur kost á sér fyrir næstu þingkosningar þar sem hann mun sækjast eftir þingsæti fyrir Sjálfstæðisflokkinn í kjördæminu,“ eins og hann orðar það sjálfur á Facebook. Sjálfstæðisflokkurinn á nú tvo þingmenn í kjördæminu; þau Harald Benediktsson 1. þingmann kjördæmisins og Þórdísi Kolbrúnu R Gylfadóttur ferðamála,- nýsköpunar- og iðnaðarráðherra. Haraldur hefur ekki gefið það út hvort hann sækist eftir endurkjöri, en í viðtali við Morgunblaðið fyrr í vetur lét Þórdís Kolbrún í ljós vilja sinn til að sækjast eftir endurkjöri í kjördæminu. Halldór Jónsson formaður Kjördæmisráðs Sjálfstæðisflokksins í NV kjördæmi segir aðspurður að ekki hafi verið tekin ákvörðun um hvort raðað verður á lista eða fram fari prófkjör í kjördæminu í aðdraganda kosninganna í haust.

Teitur Björn er 40 ára Flateyringur, búsettur í Skagafirði. Í dag starfar hann sem lögmaður hjá Íslensku lögfræðistofunni með starfsstöð í Skagafirði. „Meginverkefnið framundan verður að svara spurningunni hvernig við aukum lífsgæði og búum til meiri verðmæti þannig hægt sé að treysta afkomu fólks og fjölga atvinnutækifærum í byggðum landsins,“ segir ennfremur í tilkynningunni Teits Björns á Facebook.

Líkar þetta

Fleiri fréttir