Leifsstöð. Ljósm. Isavía.

Tæplega hálf milljón ferðamanna árið 2020

Brottfarir erlendra farþega frá landinu um Keflavíkurflugvöll voru tæplega 480 þúsund árið 2020 sem er um 1,5 milljón færri en árið 2019. Þetta er samkvæmt talningu Ferðamálastofu og Isavia. Fækkunin milli ára nemur 75,9%. Leita þarf tíu ár aftur í tímann til að sjá álíka fjölda brottfara erlendra farþega frá landinu.

Sjö af hverjum tíu brottförum árið 2020 voru farnar á tímabilinu janúar til mars og um fjórðungur yfir sumarmánuðina. Þannig voru 94% farþega ársins á þessum tveimur tímabilum. Brottförum erlendra farþega fækkaði alla mánuði síðasta árs frá fyrra ári og nam fækkunin meira en 90% sjö mánuði ársins.

Ekki hafa færri Íslendingar farið utan síðan talningar Ferðamálastofu hófust fyrir nítján árum. Á nýliðnu ári voru utanferðir Íslendinga rúmlega 130 þúsund talsins en höfðu fæstar fram að því verið 255 þúsund árið 2009.

Líkar þetta

Fleiri fréttir