Ásmundur Einar Daðason.

Ásmundur Einar í Reykjavík og galopnar framboðsmál í NV kjördæmi

Ásmundur Einar Daðason, oddviti Framsóknarflokksins í Norðvesturkjördæmi og sitjandi félags- og barnamálaráðherra, tilkynnti í gær að hann hyggist ekki gefa kost á sér til að leiða lista flokksins í Norðvesturkjördæmi fyrir komandi alþingiskosningar. Fyrirfram þótti staða hans sterk í kjördæminu og þingsæti nánast öruggt í ljósi þess að flokkurinn á nú tvo þingmenn í kjördæminu. Ásmundur Einar hyggst í stað þess gefa kost á sér til að leiða lista Framsóknarflokksins í Reykavíkurkjördæmi norður, þar sem flokkurinn á nú engan þingmann. Í Reykjavíkurkjördæmi suður er Lilja D Alfreðsdóttir menntamálaráðherra þingmaður og mun vafalítið gefa kost á sér að nýju. Þessi leikflétta er skipulögð af forystu flokksins og tilraun til að styrkja stöðu hans í höfuðborginni.

Stefnir í baráttu um forystusætin

Um leið galopnast staða flokksins í Norðvesturkjördæmi. Póstkosning mun fara fram hjá við val á framboðslista í kjördæminu og kosið um fimm efstu sætin. Framboðsfrestur til þátttöku í póstkosningunni rennur út 1. febrúar nk. Ljóst er að baráttan um efstu sæti listans verður hörð. Halla Signý Kristjánsdóttir þingkona tilkynnti í gær að hún sækist eftir að skipa 1.-2. sæti listans, en hafði áður sóst eftir 2. sætinu enda gerði hún ráð fyrir að Ásmundur Einar gæfi kost á sér. Svipðu breyting varð hjá Stefáni Vagni Stefánssyni sveitarstjórnarmanni og lögregluþjóni á Sauðárkróki. Hann hafði í árslok gefið það út að hann sæktist eftir 2. sæti á listanum, en gaf það út í gær að hann sækist nú eftir að leiða lista flokksins, skipa 1. sætið.  Þá gaf Guðveig Lind Eyglóardóttir, oddviti Framsóknarflokks í sveitarstjórn Borgarbyggðar, það út í gær að hún gæfi kost á sér í 1.-2. sæti í prófkjörinu. Loks hefur Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir, formaður Sambands ungra Framsóknarmanna og varaþingmaður, sem búsett er í Bakkakoti í Stafholtstungum, gefið það að hún gefi kost á sér í 3. sæti listans og Friðrik Már Sigurðsson á Lækjarmótum í Húnavatnssýslu sækist eftir 3.-4. sæti listans. Iða Marsibil Jónsdóttir á Bíldudal tilkynnti í gær að hún býður sig fram í 2.-3. sæti á listanum.

Líkar þetta

Fleiri fréttir