Hafbjargarhúsið, sem reyndar er hvítmálað í dag. Ljósm. úr safni.

Skoðað verður að breyta Hafbjargarhúsinu í veitingastað

Breið nýsköpunarsetur á Akranesi hefur fengið 750 þúsund króna styrk úr Uppbyggingarsjóði Vesturlands til að vinna að undirbúningi og þróunarvinnu fyrir stofnun veitingastaðar í Hafbjargarhúsinu á Breið á Akranesi. Staðsetningin þykir spennandi, en húsið er við hlið bílastæðisins sem gestir Akranesvita leggja á. Húsið stendur við sjóinn á sunnanverðri Breiðinni en framan við það er sandfjara og klettaranar skammt frá landi. Hafbjargarhúsið hefur Brim, eigandi hússins, mörg undanfarin ár notað sem geymsluhúsnæði fyrir veiðarfæri og fleira.

Ýmsar hugmyndir hafa á liðnum árum skotið upp kollinum um nýtingu Hafbjargarhússins og sagt frá í Skessuhorni, enda þykir staðsetning þess spennandi til að færa aukið líf inn á fyrrum athafnasvæði fiskverkunar og vinnslu á svæðinu. Meðal annars hafa ýmsir menningarviðburðir farið þar fram í húsinu á liðnum árum og nefna má að fyrir tólf árum voru uppi hugmyndir á vegum Akranesstofu að setja upp í húsinu alþjóðlega menningarmiðstöð með áherslu á leiklist og myndlist.

Styrkurinn sem Breið nýsköpunarsetur fékk frá Uppbyggingarsjóði verður nýttur til að gera í greiningar- og þróunarinnu ekki síst til að geta undirbúið umsóknir um enn frekari styrki til verkefnisins, að sögn Páls S Brynjarssonar framkvæmdastjóra SSV.

Húsið hefur mörg undanfarin ár verið nýtt sem veiðarfærageymsla. Ljósm. Breið nýsköpunarsetur.

Líkar þetta

Fleiri fréttir