Svipmynd frá síðustu úthlutun sjóðsins sem nú hefur verið lagður niður. Ljósm. þa

Menningarsjóðurinn Fegurri byggðir styrkir Sjóminjasafnið

Síðasta úthlutun sjóðsins og hann lagður niður í kjölfarið

Þórhalla Hulda Baldursdóttir, Kári Viðarsson, Lydía Rafnsdóttir og Sigurður Valdimar Sigurðsson fyrir hönd Menningarsjóðsins Fegurri byggðir afhentu Sjóminjasafninu í Sjómannagarðinum á Hellissandi veglega gjöf á Þorláksmessu. En stjórn Menningarsjóðsins Fegurri byggðir ákvað á síðasta ári að allar eignir sjóðsins rynnu óskiptar til Sjóminjasafnsins í Sjómannagarðinum á Hellissandi.

Í Sjóminjasafninu eru margvíslegar minjar sem tengjast útgerð áraskipa á liðnum öldum auk gripa og mynda, bátavéla og aflraunasteina. Þar er einnig endurbyggð þurrabúðin Þorvaldsbúð sem er sú þurrabúð er síðast var búið í á Hellissandi. Vitnar safnið um fjölbreytt mannlíf og harða lífsbaráttu á Snæfellsnesi í gegnum aldirnar. Sjóminjasafnið hefur verið byggt upp af mikilli elju, þekkingu og metnaði og er uppbyggingin forsvarsmönnum safnsins og byggðarlaginu öllu til mikils sóma.

Menningarsjóðurinn Fegurri byggðir á rætur sínar að rekja til samnings sem gerður var við samruna Landsbanka Íslands og Sparisjóðs Hellissands árið 1975. Tilgangur sjóðsins var að styðja og styrkja menningarmál og fegrun umhverfisins í hinum gamla Neshreppi utan Ennis. Sjóðurinn stóð meðal annars fyrir kaupum á útilistaverkinu Skipið sem reist var á Hellissandi árið 1986 en undanfarin ár hefur sjóðurinn fyrst og fremst veitt viðurkenningar til fólks sem hefur skarað fram úr á sviði menningar, lista og fegrunar umhverfisins. Í skipulagsskrá sjóðsins er heimild til að ráðstafa öllum eignum sjóðsins til aðila sem vinnur að verkefnum sem falla að markmiðum hans. Það var mat stjórnar að fjármunum sjóðsins, 2.760.901 króna, yrði best varið með því láta allar eignir sjóðsins renna til Sjóminjasafnsins og verður sjóðurinn í kjölfarið lagður niður.

Til að prýða byggðir

Eins og áður segir á Menningarsjóðurinn Fegurri byggðir sé langa sögu en þann 12. desember árið 1975 var gerður samningur á milli Landsbanka Íslands og Sparisjóðs Hellissands um að bankinn tæki yfir rekstur, eignir og skuldir sparisjóðsins. Í samningnum var ákvæði um að stofnaður skyldi menningarsjóður af varasjóði sparisjóðsins sem varðveittur yrði á reikningi hjá Landsbankanum á Hellissandi. Samin var skipulagsskrá sem var þó ekki staðfest og var sjóðurinn því ekki formlega stofnaður. Tilgangur menningarsjóðsins var að veita styrki til framfara- og menningarmála í Neshreppi utan Ennis. Höfuðmarkmið skyldi vera að prýða og fegra byggðina. Í skipulagsskrá sjóðsins kom fram að í stjórn sjóðsins skyldu sitja yfirmaður Landsbankans á Hellissandi, oddviti, hreppsstjóri, sýslunefndarmaður og skólastjóri grunnskóla Neshrepps. Árlega mátti úthluta allt að 80% af árlegum tekjum sjóðsins. Aðrar tekjur skyldu leggjast við höfuðstólinn sem mátti aldrei skerða. Þar sem skipulagsskráin var ekki staðfest voru fjármunirnir áfram geymdir í varasjóði sparisjóðsins. Fyrsti fundur í stjórn varasjóðsins var haldinn á Gufuskálum í júlí 1982. Markmið fyrstu stjórnar var að setja upp listaverk á Hellissandi. Eftir að hafa skoðað ýmsa möguleika fól sjóðurinn listamanninum Jóni Gunnari Árnasyni það verkefni að koma með hugmynd og tillögu að staðsetningu listaverks. Úr varð verkið Skipið sem sett var upp árið 1986 og stendur gegnt ráðhúsi Snæfellsbæjar á Hellissandi. Skipið er níu metra hátt og um eitt tonn að þyngd og er unnið úr ryðfríu stáli. Í grein í Dagblaðinu Vísi þann 3. desember 1986 segir Jón Gunnar um vinnu sína við verkið:

„Það hefur verið ánægjulegt fyrir margra hluta sakir að vinna að skipinu ekki bara vegna þess að viðfangsefnið er heillandi heldur einnig vegna þess að það er svo gaman að vinna fyrir þetta fólk þarna fyrir vestan. Að finna þennan lifandi áhuga í 600 manna sjávarplássi gefur manni orku og maður verður glaður og fer að trúa á fólkið og framtíðina. Hellissandur er einstakt menningarpláss og mér er sannur heiður að því að vinna fyrir þetta ágæta fólk og eignast listaverk í plássinu.“

Sjóðurinn lagður niður

Stjórn Menningarsjóðsins Fegurri byggða kom fyrst saman 12. maí 2011 eftir að Landsbankinn hf. hafði ráðstafað varasjóðunum til sjóðsins. Sýslumaðurinn á Sauðarkróki staðfesti skipulagsskrá fyrir sjóðinn sem byggði að miklu leyti á skipulagsskrá varasjóðs Sparisjóðs Hellissands. Eignir sjóðsins voru litlar og ekki svigrúm til styrkveitinga, enda mátti ekki úthluta nema hluta af tekjum sjóðsins í styrki. Því var farin sú leið að veita viðurkenningar til fólks sem þótti til fyrirmyndar á sviði menningar, lista og fegrunar umhverfisins. Undanfarin ár hefur starfsemi sjóðsins dregist saman. Ljóst var að ef sjóðurinn ætti að hafa getu til að veita styrki þyrfti að auka höfuðstól hans verulega, svo sem með fjáröflun sem stjórn sjóðsins var afhuga, enda gæti hún bitnað á tekjum annarra félaga á Snæfellsnesi. Stjórn sjóðsins taldi því að ekki væru fjárhagslegar forsendur fyrir áframhaldandi starfsemi og tók því ákvörðun á fundi 19. júní 2020, í samræmi við 10. grein skipulagsskrár, að ráðstafa eignum hans til aðila sem vinnur að verkefnum sem falla að markmiðum hans. Ákveðið var að eignir sjóðsins rynnu óskiptar til Sjóminjasafnsins í Sjómannagarðinum á Hellissandi.

Viðurkenningar og styrkir

2011 Smári J. Lúðvíksson fyrir skráningu sögulegra minja fyrri hluta 20. aldar með teikningum af    byggðinni á Hellissandi og nágrenni á þeim tíma.

2011 Erla Laxdal Gísladóttir og Ársæll Ársælsson fyrir jólaskreytingu við Laufás á Hellissandi það ár og árin á undan.

2012 Pálmi B. Almarsson fyrir útgáfu á hljómdisknum Drimbur og áhuga og tryggð við heimabyggðina.

2013 Key Wiggs fyrir áratugastarf við tónlistarkennslu og kórstjórn og  Ómari Lúðvíkssyni fyrir stuðning við þá starfsemi.

2013 Reynir Ingibjartsson fyrir gerð og útgáfu landa- og göngukorta af Snæfellsnesi.

2014 Kári Viðarsson fyrir áhuga og dugnað við að koma á fót leikhúsi, semja leikverk og standa fyrir sýningum og tónleikum í Frystiklefanum á Rifi.

2014 Þór Magnússon fyrir þátttöku við uppbyggingu og leiðsögn að Vatnshellinum sunnan Purkhóla undir jökli.

2015 Alda Dís Arnardóttir fyrir góðan árangur á tónlistarsviðinu.

2017 Sjómannasafnið í Sjómannagarðinum á Hellissandi. Styrkur að fjárhæð 200.000 krónur.

2020 Sjóminjasafnið í Sjómannagarðinum á Hellissandi. Öllum eignum sjóðsins, 2.760.901 krónu, ráðstafað til safnsins og Menningarsjóðurinn Fegurri byggðir lagður niður.

Stjórn Menningarsjóðsins skipa:

Þórhalla Hulda Baldursdóttir, formaður stjórnar

Kári Viðarsson, stjórnarmaður

Guðríður Sirrý Gunnarsdóttir, stjórnarmaður

Varamenn:

Lydía Rafnsdóttir

Sigurður Valdimar Sigurðsson.

 

Þórhalla Hulda Baldursdóttir tók saman.

Líkar þetta

Fleiri fréttir