Stoltir foreldrar. Davíð og Íris frá Borgarnesi með nýjustu viðbótina í fjölskyldu sína, Leu Mjöll.

Fyrsti Vestlendingurinn á nýju ári er stúlka

Fyrsti Vestlendingurinn á nýju ári kom í heiminn um nónbil 3. janúar. Er það stórt og myndarlegt stúlkubarn frá Borgarnesi sem hefur verið nefnd Lea Mjöll. Hún var 4.080 grömm og 52 sentimetrar þegar hún var mæld stuttu eftir komuna í heiminn á fæðingadeild HVE á Akranesi. „Fæðingin gekk mjög vel og hratt fyrir sig,“ segir Íris Gunnarsdóttir, móðir Leu Mjallar, og bætir jafnframt við að öllum heilsist vel. Lea Mjöll er þriðja barn þeirra Írisar og Davíð Ásgeirssonar, allar eru þær stúlkur. Elst er Tara sem er 6 ára og svo Elma 3 ára. „Hún er alveg á pari við miðju systurina, Elmu. Fæddist nánast alveg jafn þung og löng,“ segir Íris um nýjustu viðbótina í fjölskylduna.

Lítið stress

Settur dagur hjá Írisi var 1. janúar svo strax á nýju ári voru þau Davíð farin að bíða eftir bumbubúanum sem lét svo sjá sig tveimur dögum síðar. „Aðfararnótt 3. janúar fann ég fyrir verkjum og vissi að það væri tímabært að fara upp á spítala. Ég kallaði út ömmuna í næsta húsi sem kom um leið til að vera hjá eldri systrunum. Við síðan brunuðum út á Akranes um sjö leitið saman morgun, svo kemur hún í heiminn rétt fyrir klukkan þrjú um daginn. Þetta var allt saman mjög þægilegt,“ segir Íris um aðdragandann. En er Lea Mjöll lík mömmu sinni eða pabba? „Ég myndi segja að hún væri líkari mér, en ætli hún sé ekki blönduð. Ég sé það ekki alveg strax, það kemur í ljós með tímanum,“ segir Íris létt í lund að endingu.

Líkar þetta

Fleiri fréttir