Vilhjálmur Arnórsson

„Maður fær að ferðast um landið og er er alltaf að hitta nýtt fólk“

Vilhjálmur Arnórsson hefur unnið við brúarsmíðar í 15 ár og segist líka það starf mjög vel. Hann er í dag verkstjóri yfir öðrum af tveimur brúarflokkum Vegagerðarinnar. „Þetta er skemmtileg vinna, maður fær að ferðast um landið og er er alltaf að hitta nýtt fólk. Maður þekkir orðið fólk um allt land og er kominn með mjög gott tengslanet,“ segir Villi þegar blaðamaður Skessuhorns ræddi við hann. Villi kemur úr Reykhólasveitinni en er í dag búsettur í Búðardal ásamt Dagnýju Láru Mikaelsdóttur eiginkonu sinni og þremur börnum þeirra. „Búðardalur er mjög miðsvæðis fyrir mig, þaðan er stutt í Húnavatnssýslu, út á Snæfellsnes og bara í allar áttir,“ segir Villi.

Sótti um í fikti

„Ég er yfirleitt í burtu virka daga og kem heim um helgar og annan hvern föstudag. Stundum fær maður meiri tíma heima fyrir tölvuvinnu milli verkefna,“ segir Villi spurður hvernig vinnunni sé háttað. „Ég á alveg rosalega þolinmóða konu, sem er mjög mikilvægt svo þetta gangi upp,“ bætir hann við. En hvernig kom það til að hann fór að vinna við brúarsmíðar? „Þetta var nú bara tilviljun. Ég var að vinna á sveitabæjum heima í Reykhólasveit þegar systir mín, sem er búsett á Hvammstanga þaðan sem brúarflokkurinn er gerður út, benti mér á að það væri laust starf hjá Vegagerðinni þar. Hún sagði að þetta væri kjörið fyrir mig, að fá mér loksins alvöru launaða vinnu,“ svara Villi og hlær. „Ég sótti bara um í algjöru fikti,“ bætir hann við. Villi fékk þó ekki starfið en nokkrum mánuðum seinna var haft samband við hann og honum boðið annað starf hjá brúarflokknum. „Það var hringt á föstudegi og ég spurður hvort ég gæti mætt á mánudegi. Ég sagði bara já og svo var ég sóttur á gulum bíl á mánudagsmorgni og við fórum norður á Húsavík og ég hef verið í þessu síðan,“ segir hann.

Nánar er rætt við Villa í jólablaði Skessuhorns.

Líkar þetta

Fleiri fréttir