Kjötborð í Einarsbúð á Akranesi. Ljósm. úr safni.

Verulega breytt neyslumynstur í kjöti

Sala á kjöti frá afurðastöðvum dróst saman um 10,5% í októbermánuði miðað við sama mánuð í fyrra. Þá hafði sala dregist saman á síðasta ársfjórðungi um 9,8%, en um 5% ef miðað er við tólf mánaða tímabil samkvæmt tölum frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu. Bændablaðið skoðaði sölu á einstökum tegundum. Langmestur samdráttur var í október á sölu kindakjöts eða 23,5%. Þá var 14% samdráttur í sölu nautgripakjöts og 9,3% samdráttur í sölu á alifuglakjöti frá afurðastöðvum. Hins vegar jókst sala á hrossakjöti um 39,8% og svínakjöti um 17,9%.

Frá ágústbyrjun til októberloka var 25,5% samdráttur í sölu á kindakjöti. „Án efa má rekja verulegan hluta þessa samdráttar til lokana og takmarkaðs aðgengis að hótelum og veitingastöðum vegna Covid-19 faraldursins. Á síðasta ársfjórðungi nam samdrátturinn í kjötsölunni 9,8%. Þar af var 25,5% samdráttur í sölu á kindakjöti, 9,6% samdráttur í alifuglakjöti og 4% samdráttur í sölu á nautgripakjöti. Aftur á móti var 22,5% aukning í sölu á hrossakjöti og 6,8% aukning í sölu á svínakjöti á tímabilinu,“ segir í frétt Bændablaðsins.

Þegar skoðaðar eru tölur yfir tólf mánaða tímabil kemur í ljós að heildarsamdrátturinn í kjötsölu var 5% á landinu. Þar af var mestur samdráttur í sölu á kindakjöti frá afurðastöðvum eða 11,4%, 6,8% samdráttur í sölu á alifuglakjöti og 3,1% samdráttur í sölu á nautgripakjöti. Hinsvegar jókst salan á hrossakjöti um 3,1% síðustu 12 mánuði og um 2,4% í svínakjöti.

Sjá frétt á bbl.is hér

Líkar þetta

Fleiri fréttir