Lokið var í gær við að reisa húsið við Asparskóga, tæpum sólarhring eftir að verkið hófst. Ljósm. frg.

Fjölbýlishús reist á nokkrum klukkutímum

Akurnesingar tóku margir eftir flutningabílum með gríðarstóra farma í byrjun vikunnar. Þeir óku áleiðis frá Akraneshöfn, upp bæinn í lögreglufylgd. Um er að ræða húseiningar á vegum fyrirtækisins Modulus ehf. en fyrirtækið er nú að reisa 12 íbúða fjölbýlishús við Asparskóga. Einingarnar eru frá Byko-Lat í Lettlandi. Íbúðirnar eru tveggja, þriggja og fjögurra herbergja.

Modulus kom áður að fjölbýlishúsum á vegum Bjargs íbúðafélags. Að sögn Jakobs Helga Bjarnasonar, eins eigenda fyrirtækisins, er þetta nýja hús svipað hinum fyrri en þó er búið að bæta og breyta hönnun og skipulagi íbúðanna. Byrjað var að reisa húsið seinni partinn á mánudaginn í þessari viku og var því lokið í hádeginu daginn eftir.

Íbúðirnar fóru í sölu síðastliðinn föstudag og segir Jakob að áhugi hafi strax gert vart við sig og þegar komið tilboð í eina íbúð. Að sögn Jakobs er það Domusnova fasteignasala sem sér um sölu á íbúðunum.

Líkar þetta

Fleiri fréttir