Löngum hefur verið svo að grasið sé jafnan grænna hinum megin við lækinn. Hér eru mjólkurkýrnar á Glitstöðum að vaða Norðurána til að komast í beitina. Ljósm. gs.

Óskar að landbúnaðarráðherra svari spurningum um verð á greiðslumarki

Guðrún Sigurjónsdóttir kúabóndi á Glitstöðum í Norðurárdal sendi 2. nóvember síðastliðinn erindi til Kristjáns Þórs Júlíussonar landbúnaðarráðherra. Þar varpar hún fram fyrirspurnum í nokkrum liðum um þá stöðu sem upp er komin með viðskipti með greiðslumark mjólkur. Guðrún er afar ósátt við að búið sé að festa verð fyrir greiðslumark í þreföldu afurðastöðvaverði mjólkur, þ.e. 294 krónum á lítrann, næstu þrjú árin. Bendir hún á ýmis rök í þá veru að of hátt verð fyrir greiðslumark geri rekstur búa óhagkvæman og stuðli ekki að hagræðingu. Fjallað var síðast um málið í Skessuhorni 28. október síðastliðinn.

Guðrún bendir í bréfi sínu til ráðherra á að þessi ákvörðun hans sé þvert á það sem haldið hafi verið fram að fulltrúar bænda í Landssambandi kúabænda og Bændasamtökum Íslands hafi barist fyrir. Höfðu þeir lagt til að greiðslumarksverð yrði ekki sett hærra en tvöfalt það sem afurðastöðvar greiða fyrir mjólkina. „Nú liggur fyrir í svari LK og BÍ að þetta var gert til að varna því að verð á greiðslumarkaði yrði gefið frjálst og að það hafi verið vilji ríkisins að svo væri. Með því gengur ríkið þvert á vilja bænda og samþykktir aðalfundar Landssambands kúabænda 2019 en þar var samþykkt að hámarksverð yrði tvöfalt afurðastöðvaverð. Verslun með greiðslumark á háu verði stuðlar ekki að hagkvæmum rekstri og stórskaðar samkeppnishæfni greinarinnar, t.a.m. við þann innflutning sem þegar er farinn að hafa áhrif á sölu okkar mjólkurafurða,“ bendir Guðrún á.

Að því sögðu spyr Guðrún landsbúnaðarráðherra hvort það sé vilji hans að verð á greiðslumarki mjólkur sé frjálst? Í öðru lagi hvaða hag ríkið hafi af því að fara gegn vilja bænda og verðleggja greiðslumark langt umfram það sem eðlilegt er að greinin standi undir miðað við það samkeppnisumhverfi sem hún er í? Þá spyr hún hver rök ráðherrans séu fyrir því að hafa verðið svo miklum mun hærra en bændur hafa lagt til og bendir á að hátt verð skerði samkeppnishæfni greinarinnar. Í fjórða lagi spyr hún hvaða hagsmuni ráðherrann sé að verja og hver stefna hans varðandi verð á greiðslumarki sé, hvar hún hafi komið fram, hvort gerð hafi verið einhver greining á áhrifum greiðslumarksverðs á samkeppnishæfni greinarinnar og hversu háu verði á greiðslumarki ráðherrann telji að greinin rísi undir?

Líkar þetta

Fleiri fréttir