Bruni varð í Fjöliðjuhúsinu við Dalbraut að kvöldi 8. maí 2019. Starfsemin er nú í bráðabirgðahúsnæði við Smiðjuvelli. Ljósm. mm.

Leggja til að Fjöliðjuhúsið verði rifið og nýtt hús byggt

Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins á Akranesi munu leggja það til á fundi bæjarstjórnar síðdegis í dag að ákvörðun um val á leið við uppbyggingu á Fjöliðjunni, vernduðum vinnu- og hæfingarstað, verði frestað. Frá þessu er greint á facebooksíðu flokksins. Fresturinn gæfi bæjaryfirvöldum tækifæri til ítarlegrar skoðunar á uppbyggingaráformum með hliðsjón af breyttu skipulagi á aðliggjandi lóðum og fari fram samhliða fjárhagsáætlanagerð fyrir árið 2021, segir í tillögunni. Í greinargerð með henni er lagt til að núverandi hús Fjöliðjunnar við Dalbraut verði rifið og farið í hönnun og byggingu nýs húss sem henti betur starfseminni í dag. Vísað er til þess að mygla hafði greinst í húsinu við Dalbraut áður en bruni varð í því vorið 2019. „Að hafa þessa vá yfirvofandi er óþarfa áhætta og að stefna viðkvæmum einstaklingum inn í mögulega ótryggt húsnæði er umhugsunarvert,“ segir í greinargerð með tillögu Sjálfstæðismanna.

Í greinargerðinni segir m.a. að bruninn í Fjöliðjunni á Akranesi í maí á síðasta ári hafi verið íbúum bæjarins mikið áfall ekki síst þeim er þangað sóttu sína vinnu. „Þar sem skemmdir af völdum brunans urðu miklar varð strax ljóst að grípa yrði skjótt til bráðabirgðaráðstafana svo tryggja mætti hið gefandi starf er þar fer fram. Það tókst og þá um leið skapaði bæjarstjórn sér nauðsynlegt andrými til þess að ákveða hvernig haga skyldi uppbyggingu á aðstöðu Fjöliðjunnar til framtíðar.“ Þá segir í greinargerðinni að fyrir bruna Fjöliðjuhússins hafi verið búinn að koma í ljós alvarlegur mygluvandi í húsnæðinu sem ekki hafði verið komist fyrir. „Umfjöllun fjölmiðla á síðustu dögum um myglu í húsum, ásamt þeim alvarlegu áhrifum sem hún getur haft á heilsu fólks og hversu erfitt hefur reynst að uppræta hana með viðgerðum, kallar á endurskoðun á því mati sem meirihluti bæjarráðs lagði til grundvallar sinni ákvörðun. Fjölmörg dæmi er um einstaklinga á Akranesi, sem glímt hafa við veikindi vegna myglu, tala einnig sínu máli.“ Þá segir að dæmin hafi sannað að fyrirtæki og sveitarfélög hafa reynt að koma í veg fyrir að þessi vágestur, þ.e. myglan, lifi í húsakynnum þeirra en niðurstaðan leiðir oftar en ekki til niðurrifs húsa. „Þá hefur jafnvel verið kostað miklu til sem reynist glatað fé. Heilsa fólks er dýrmæt og verður ekki metin til fjár. Að hafa þessa vá yfirvofandi er óþarfa áhætta og að stefna viðkvæmum einstaklingum inn í mögulega ótryggt húsnæði er umhugsunarvert. Horfum saman til framtíðar,“ segir í greinargerðinni: „Látum hanna og byggja nýtt húsnæði fyrir starfsemi Fjöliðjunnar. Húsnæði sem mætir öllum nútímakröfum sem gerðar eru til starfseminnar, mætir þörfum starfsmanna og væntingum skjólstæðinga nú og til lengri framtíðar. Horfum á ný tækifæri á stækkaðri lóð. Tækifærið er svo sannarlega til staðar, vilji er allt sem þarf,“ segir í greinargerð Sjálfstæðismanna.

Sjá nánar hér.

Líkar þetta

Fleiri fréttir