Sverrir Hermannsson, þáverandi menntamálaráðherra, tók fyrstu skóflustunguna að íþróttamiðstöðinni í Stykkishólmi. Mynd er af vef Stykkishólmsbæjar.

Íþróttamiðstöðin í Stykkishólmi er þrjátíu ára í dag

Íþróttamiðstöðin í Stykkishólmi er 30 ára í dag, en hún var vígð við hátíðlega athöfn laugardaginn 10. nóvember 1990. Frá því er greint á vef bæjarfélagsins að það var Sverrir Hermannsson, þáverandi menntamálaráðherra, sem tók fyrstu skóflustunguna að byggingunni 22. maí 1987. Jafnframt afhenti ráðherrann þáverandi sveitarstjóra, Sturlu Böðvarssyni, samning sem gerður hafði verið milli menntamálaráðuneytis, fjármálaráðuneytis og Stykkishólmsbæjar um framlag ríkissjóðs til byggingarinnar en langan tíma hafði tekið að koma þessum samningi á og tryggja þannig fjármuni til verksins. Í framhaldi af byggingu íþróttahússins tók Stykkishólmsbær í notkun íþróttavöll árið 1996 og nýja sundlaug 1999.

Í byggingarnefnd fyrir íþróttahúsið höfðu verið bæjarstjórinn Sturla Böðvarsson, Gunnar Svanlaugsson og Davíð Sveinsson. Forhönnun byggingarinnar var í höndum Ormars Þórs Guðmundssonar og Viðars Ólafssonar hjá Verkfræðistofu Sig. Thoroddsen. Um eftirlit á byggingarstað sá Erlar Kristjánsson bæjarverkfræðingur. Byggingarstjóri var Sigurður Kristjánsson og aðalverktaki var Trésmiðja Stykkishólms. Nær allir verktakar við bygginguna voru úr Stykkishólmi. Kostnaður við bygginguna nam á sínum tíma 137 milljónum króna.

Sama dag og tekin var fyrsta skóflustungan að íþróttamiðstöðinni varð Stykkishólmshreppur að Stykkishólmsbæ þegar Alexander Stefánsson þáverandi félagsmálaráðherra gaf út tilskipun um bæjarréttindi Stykkishólmshrepps sem frá þeim degi varð Stykkishólmsbær. Það var síðan 10. júní 1987 sem bæjarstjórn Stykkishólmsbæjar hélt fyrsta fund sinn og hreppsnefnd Stykkishólmshrepps sinn síðasta.

Líkar þetta

Fleiri fréttir