Víða lagfæringar í vegagerð á Snæfellsnesi

Á Snæfellsnesi hefur í haust verið unnið að ýmsum verkefnum hjá Vegagerðinni, bæði stórum og smáum. Stærsta verkefnið var vinna við að bæta öryggi á Snæfellsnesvegi en í Stórholtum voru lengd ræsi og vegfláar og öryggissvæði lagað en um 6000 rúmmetrum var keyrt í vegfláana. Í Grundarbotni austan megin við Grundarfjörð var skipt um tvö ræsi sem voru orðin ónýt auk þess sem Framsveitarvegur var styrktur og borin í hann möl. Við Snæfellsnesveg í Helgafellssveit var unnið að styrkingu ásamt lagfæringu og í vikunni verða Kolviðarnesvegur og Lýsudalsvegur lagfærðir og í framhaldinu Helgafellssveitarvegur og Stakkhamarsvegur. Vegagerðin var einnig Þjóðgarðinum Snæfellsjökli til aðstoðar vegna vegar og plans við Saxhól.

Nýi vegurinn um Fróðárheiði var einnig stikaður í haust ásamt öðrum verkefnum tengdum þeirri framkvæmd eins og girðingum og fleiru. Stikur voru einnig lagaðar fyrir veturinn og gert við slitlag eins og reyndar er gert jafnt og þétt. Af þessu má sjá að verkefnin hjá starfsmönnum Vegagerðarinnar hafa verið mörg og misjöfn.

Líkar þetta

Fleiri fréttir