Sjálfsagður hlutur á tímum hertra sóttvarna. Ljósm. James Einar Becker, Háskólanum á Bifröst.

Stefnir ekki í veldisvöxt eins og víða erlendis

Þórólfur Guðnason, sóttvarnarlæknir, sagði á upplýsingafundi í morgun að innanlandssmitin nú séu nokkuð stöðug og heldur vera á leiðinni niður á við. 26 greindust með veiruna hér á landi í gær og er það nokkuð lægri tala en sást fyrir helgi. Hertar reglur tóku gildi á miðnætti á föstudagskvöld og á morgun taka í gildi hertari reglur um skólahald. Sagðist Þórólfur vona að hægt verði að byrja að aflétta takmörkunum eftir tvær vikur en tekur þó fram að það þurfi að fara hægt í þær aðgerðir. Þá segir hann ekkert benda til þess að faraldurinn stefni í veldisvöxt eins og er að gerast í mörgum löndum í kringum okkur.

Þórólfur ítrekaði mikilvægi þessara aðgerða sem farið hefur verið í og að þó farsóttarþreyta sé komin í okkur öll sé mikilævgt að hafa augun á tilgangi aðgerðanna og að halda þetta út. Ef allir geri sitt verði vonandi hægt að slaka á takmörkunum fljótlega og þá verði hægt að halda aðventu og jól með minni takmörkunum. Að lokum sagði hann ekkert nýtt vera að frétta af bóluefnum en komin er af stað undirbúningsvinna svo allt verði tilbúið að bólusetja hratt og örugglega þegar bóluefni kemur, sem hann vonar að verði fljótlega á næsta ári.

Mikilvægt að sækja sér heilbrigðisþjónustu

Alma D. Möller, landlæknir, sagði stöðuna í heilbrigðiskerfinu vera þunga og enn að þyngjast fyrir norðan og er Sjúkrahúsið á Akureyri komið á hættuástand. Sýkingavarnarteymi var sett saman um helgina og er því ætlað að bregðast við kalli hjúkrunarheimila um allt land komi þar upp smit, leiðbeina varðandi sýkingavarnir, aðstoða við smitrakningu og fleira. Hvatti Alma stjórnendur og starfsmenn hjúkrunarheimila til að vera í viðbragðsstöðu.

Alma fór yfir stöðuna almennt í heilbrigðiskerfinu og hvatti fólk til að sækja sér þá þjónustu sem það þyrfti á að halda. Hún sagði mikið áhyggjuefni að fólk væri kannski ekki að leita heilbrigðisþjónustu, hvort sem er vegna líkamlegra eða geðrænna vandamála. Þá minnti hún á að upplýsingar um bjargráð vegna kvíða eða andlegra vandamála er að finna á Covid.is og Hjálparsíminn 1717 og netspjallið þar og á Heilsuveru er opið.

Líkar þetta

Fleiri fréttir