Á gjörgæslu eftir líkamsárás í Borgarnesi

Karlmaður á sextugsaldri, sem varð fyrir alvarlegri líkamsárás í Borgarnesi mánudaginn 19. október síðastliðinn, var fluttur á gjörgæslu tveimur dögum síðar. Ástand hans hafði þá versnað mjög og var talið lífshættulegt. Hann var rifbeinsbrotinn, kjálkabrotinn og mögulega viðbeinsbrotinn ásamt því að hafa nokkur bitför í andliti. Eftir að hann var fluttur frá sjúkrahúsinu á Akranesi á Landspítala kom í ljós að annað lunga hans hafði fallið saman. Þetta er meðal þess sem kemur fram í gæsluvarðhaldsúrskurði Héraðsdóms Vesturlands og greint er frá á fréttavef Ríkisútvarpsins.

Ætlaði að gista hjá manninum

Í greinargerð lögreglustjóra kemur fram að þegar lögregla kom á vettvang hafi þolandinn staðið fyrir utan húsið, blóðugur í andliti og haldið um brjóstkassann. Hann hafi verið í heimsókn hjá árásarmanninum og ætlað að gista þar um nóttina. Þeir hefðu drukkið nokkuð og verið orðnir ölvaðir þegar húsráðandi réðst að honum þar sem hann sat í rúmi í íbúðinni, kýlt hann með krepptum hnefa í andlit og líkama og bitið hann í andlitið. Sá sem varð fyrir árásinni hafi talið að maðurinn myndi drepa sig og því slegið frá sér þar til árásarmaðurinn rotaðist. Í framhaldi af því hafi hann komið sér út úr húsinu.

Blóðslettur um veggi og gólf

Samkvæmt lögreglu mætti henni mikið blóð þegar farið var inn í íbúðina, blóðslettur og blóðkám víða um gólf og veggi. Mikið af blóðblettum hafi verið á rúmfötum rúmsins þar sem brotaþoli kvaðst hafa setið þegar ráðist var á hann. Árásarmaðurinn lá á gólfinu með blóð á höndum sér og í andliti. Hann hafi verið mjög ölvaður og ekki geta sagt til um hvað hefði gerst, en kvartað undan höfuðverk og ekki getað staðið upp. Hann var síðan handtekinn eftir læknisskoðun.

Við yfirheyrslur kvaðst árásarmaðurinn hafa neytt áfengis og sterkra verkjalyfja en mundi ekki eftir því að hafa kýlt eða bitið hinn manninn. Lögregla telur framburð hans ekki fullnægjandi skýringu á því hvað gerðist og ekki samræmast því sem komið hafi fram við rannsókn. Mikilvægt sé að geta tekið skýrslu af brotaþolanum en það hafi ekki verið hægt þar sem hann sé á gjörgæslu og koma verði í veg fyrir að árásarmaðurinn geti haft áhrif á framburð hans. Árásarmaðurinn var í héraðsdómi úrskurðaður í gæsluvarðhald og einangrun til 2. nóvember, en Landsréttur stytti gæsluvarðhaldið til 29. október með úrskurði síðastliðinn föstudag.

Líkar þetta

Fleiri fréttir