Frá vettvangi slyssins sem varð fyrir um ári síðan. Hér er þyrlan að fljúga með slasaða á sjúkrahús.

Vansvefta ökumaður og bílbelti ekki notuð

Rannsóknanefnd samgönguslysa hefur lokið rannsókna á banaslysi sem varð á móts við bæinn Gröf í Eyja- og Miklaholtshreppi í október á síðasta ári. Fimm manna amerísk fjölskylda var í bíl sem hafnaði utan vegar og valt. Í niðurstöðu rannsóknar segir að rekja megi slysið til þreytu ökumanns eftir langt flug hingað til lands frá Ameríku. 17 ára sonur hjónanna lést eftir að hann og systir hans köstuðust út úr bílnum sem valt rúma 40 metra. Stúlkan var föst undir bílnum þegar vegfarendur komu að slysinu. Fram kemur í skýrslu nefndarinnar að vegfarendur sem komu að slysinu hafi sennilega bjargað lífi stúlkunnar með því að velta bílnum ofan af henni og hefja endurlífgun á staðnum. Þá telur nefndin að ungmennin sem köstuðust út úr bílnum hafi sennilega ekki verið í bílbelti.

Rannsóknarnefndin segir að tímamismunur og næturflug geri það að verkum að margir farþegar séu þreyttir við komuna til landsins. Mikilvægt sé að fræða flugfarþega sem komi úr millilandaflugi um þá áhættu sem þreyttur ökumaður skapi sjálfum sér og öðrum í umferðinni. Þá brýnir nefndin fyrir ökumönnum og farþegum að nota alltaf bílbelti, hvort sem verið er að fara styttri eða lengri leiðir. „Vanhöld á bílbeltanotkun eru ein af helstu orsökum banaslysa í umferðinni.“

Líkar þetta

Fleiri fréttir