Endurræsa körfuboltatímabilið

Körfuknattleikssamband Íslands hefur gefið út leiðbeiningar um endurræsingu keppnistímabils Domino‘s og 1. deilda eftir stopp vegna sóttvarnarráðstafana yfirvalda. Nefnast leiðbeiningarnar „Aftur á parketið“. Leiðbeiningarnar eru unnar í samvinnu við heilbrigðisteymi KKÍ og fræðasamfélagið, en meðal annars er byggt á endurræsingar leiðbeiningum FIBA. „Aftur á parketið er hugsað sem eins konar leiðarvísir eða leiðbeiningar til þeirra félaga sem þurfa að koma afreksíþróttamönnum sínum aftur í gang eftir það æfingastopp sem hefur verið á höfuðborgarsvæðinu síðustu vikurnar. Það er von þeirra er að þessari vinnu koma að þessar leiðbeiningar geti liðsinnt aðildarfélögum KKÍ við að skipuleggja sína leið aftur á parketið,“ segir í tilkynningu.

Stjórn KKÍ ákvað á fundi sínum 22. október sl. breytingar á fyrirkomulagi bikarkeppni karla. Umræddar breytingar ná ekki yfir bikarkeppni kvenna þar sem konurnar fara beint í 16 liða úrslit. Ákvörðun stjórnar snýr að því að ógilda þann bikardrátt er fram fór 1. október sl. og leika sérstaka undankeppni 1. deildarliða að 16 liða úrslitum bikarkeppni KKÍ, en öll tólf lið Domino’s deildar karla fara beint í 16 liða úrslit keppninnar. Þetta þýðir að lið úr 2. og 3. deild karla taka ekki þátt í bikarkeppninni þetta tímabilið. „Það stefnir í þéttara leikjaprógram í Domino’s og 1. deildum karla og kvenna eftir þær samkomutakmarkanir sem verið hafa í gildi síðustu vikur, en við það fækkar mögulegum leikdögum bikarkeppninnar. Stjórn KKÍ tók því þá erfiðu ákvörðun að gera þessar breytingar á bikarkeppninni sem gilda aðeins þetta tímabilið og eiga aðeins við um bikarkeppni karla.“ Nánar á vef KKÍ.

Líkar þetta

Fleiri fréttir