
Aldarminning Guðmundar Runólfssonar birt í Skessuhorni í dag
Síðastliðinn föstudag voru 100 ár frá fæðingu Guðmundar Runólfssonar (f. 9.10.1920 – d. 1.2.2011) skipstjóra og útgerðarmanns í Grundarfirði. Guðmundur er einn af frumkvöðlum Grundarfjarðar og er ævistarf hans samofið uppbyggingu byggðarinnar þar sem stendur með miklum blóma í dag. Guðmundur var gerður að heiðursborgara Grundarfjarðar árið 2010 en með því vildi bæjarstjórn Grundarfjarðar sýna honum þakklæti fyrir lífsstarf hans og framlag til byggðar og mannlífs í Grundarfirði.
Í Skessuhorni sem kom út í dag er myndskreytt æviminning Guðmundar Runólfssonar, grein sem Sigurður Már Jónsson blaðamaður skrifaði.