Féð komið í aðhald og bíður þess að verða rekið í bátana. Ljósm. sá.

Fjárbúskap í Bíldsey á Breiðafirði er nú hætt

Svo lengi sem menn muna hefur fé gengið í Bíldsey á Breiðafirði ýmist allt árið eða að hluta. Eyjan er í um tuttugu mínútna siglingafjarlægð norðaustan við Stykkishólm. Bíldsey er í eigu afkomenda Árna Helgasonar sem nýtt hafa hana til sumardvalar en gamla íbúðarhúsinu er haldið við.

Eyjan var í ábúð til 1946 en eftir það og allt til ársins 2002 var hún eingöngu notuð til vetrarbeitar sauðfjár. „Ég og tveir vinir mínir og jafnaldrar; Hjörtur Sigurðsson sjómaður sem býr á Stóra Kambi í Breiðuvík og Gunnar Kristjánsson í Grundarfirði, höfum undanfarin átján ár verið með fé sem gengið hefur allt árið í eyjunni,“ segir Gunnlaugur Árnason í samtali við Skessuhorn. Síðastliðinn sunnudag var eyjafé þeirra hins vegar smalað í síðasta sinn og komið um borð í báta sem sigldu með það í land. „Nú höfum við ákveðið að hætta með fé og verður eyjan því fjárlaus í það minnsta næstu tvö árin. Hvað síðar verður mun koma í ljós, en það er mikið atriði að beita eyjar sem þessar. Ef þær eru ekki beittar fara þær fljótt í sinu og hvönn,” segir Gunnlaugur.

Hann segir að kindurnar þeirra hafi allan tímann þrifist vel í eyjunni. Þeir hafa farið með hrútana út í eyjuna í desember og þegar komið hefur að sauðburði er féð vaktað á að giska þriðja hvern dag. Eyjafé þeirra var kollótt og gátu ærnar borið sjálfar án aðstoðar mannfólksins. Í byrjun júlí hefur fénu verið smalað til rúnings og síðan að hausti sótt sláturlömb. Þessum eyjabúskap þeirra Gunnlaugs, Hjartar og Gunnars er nú lokið.

Líkar þetta

Fleiri fréttir