Sanja Orozovic dró vagninn fyrir Skallagrím í fyrsta leik vetrarins. Ljósm. Skallagrímur/ Ómar Örn.

Spennusigur í fyrsta leik

Skallagrímur vann þriggja stiga sigur á Haukum í spennandi leik, 51-54, þegar liðin mættust í fyrstu umferð Domino’s deildar kvenna í körfuknattleik. Leikið var í Hafnarfirði í gærkvöldi.

Mikill haustbragur var á liðunum í upphafi leiks og lítið skorað framan af fyrsta leikhluta. Þegar sjö mínútur voru liðnar var staðan 6-6. En þá náðu Skallagrímskonur yfirhöndinni og leiddu 7-10 eftir upphafsfjórðunginn. Þær komust síðan í 7-15 snemma í öðrum leikhluta en skoruðu ekki næstu fjórar mínúturnar og á meðan tókst Haukum að jafna. Liðin skiptust á að skora síðustu mínúturnar í fyrri hálfleik og Haukar leiddu með einu stigi í hléinu, 23-22.

Þriðji leikhluti var mjög jafn og spennandi þó körfuboltinn væri kannski ekki áferðarfagur. Heimakonur voru tveimur stigum yfir fyrir lokafjórðunginn, 38-36. Skallagrímskonur náðu undirtökunum að nýju þegar fimm mínútur lifðu leiks og leiddu með örfáum stigum. Haukar gerðu atlögu undir lokin, þegar liðið minnkaði muninn í eitt stig. En Borgnesingar létu forystuna ekki af hendi og sigruðu að lokum með þremur stigum, 51-54.

Sanja Orozovic var atkvæðamest í liði Skallagríms með 22 stig, sex fráköst og fimm stoðsendingar. Nikita Telesford skoraði 15 stig og tók 13 fráköst. Keira Robinson fann sig ekki í leiknum, tók aðeins sjö skot utan af velli sem ekkert fór ofan í. Hún setti hins vegar niður átta vítaskot og tók 13 fráköst. Maja Michalska skoraði fimm stig og tók sex fráköst og Sigrún Sjöfn Ámundadóttir skoraði fimm stig sömuleiðis.

Í liði Hauka var Alyesha Lovett stigahæst með 21 stig og 15 fráköst að auki. Bríet Sif Hinriksdóttir skoraði 14 stig en aðrar komust ekki í tveggja stafa tölu á stigatöflunni.

Skallagrímur situr í fjórða sæti með tvö stig, eins og liðin þrjú í sætunum fyrir ofan sem einnig unnu sína leiki í fyrstu umferð mótsins. Næsti leikur Skallagríms er fyrsti heimaleikur vetrarins. Hann er gegn Keflavík næstkomandi miðvikudagskvöld, 30. september.

Líkar þetta

Fleiri fréttir