Kári og Dalvík/Reynir mættust í rigningunni fyrir norðan í gær. Ljósm. Knattspyrnufélag Kára.

Sóttu þrjú stig norður

Káramenn sóttu góðan sigur norður til Dalvíkur í gærkvöldi þegar þeir mættu Dalvík/Reyni í 2. deild karla í knattspyrnu. Þegar lokaflautan gall hafði Skagaliðið skorað tvö mörk gegn einu og fór því með þrjú stig í farteskinu heim til Akraness.

Öll mörk leiksins komu í fyrri hálfleik. Heimamenn fengu óskabyrjun þegar Áki Sölvason kom Dalvík/Reyni yfir strax á 4. mínútu leiksins en Elís Dofri G. Gylfason jafnaði metin fyrir Kára á 18. mínútu. Mínútu áður en flautað var til hálfleiks dró til tíðinda, þegar Káramenn fengu vítaspyrnu. Reynsluboltinn Jón Vilhelm Ákason fór á punktinn og skoraði. Reyndist það vera sigurmark leiksins.

Káramenn hafa 22 stig í 8. sæti deildarinnar eftir 17 leiki og eiga leik til góða á liðin fyrir ofan sig og neðan. Í sætinu fyrir ofan situr Fjarðabyggð, sem er einmitt næsti andstæðingur Kára. Með sigri í þeim leik geta Káramenn lyft sér uppfyrir austfirðinga í deildinni. Leikur Káramanna og Fjarðabyggðar fer fram á Akranesi næstkomandi sunnudag, 27. september.

Líkar þetta

Fleiri fréttir