Ljósm. úr safni/ sá.

„Markmiðið er að fara í úrslitakeppnina“

– segir Halldór Steingrímsson, þjálfari Snæfells

Keppni í Domino‘s deild kvenna í körfuknattleik hefst í kvöld, miðvikudaginn 23. október. Í opnunarleiknum mæta Snæfellskonur liði Fjölnis á útivelli kl. 18:30, en aðrir leiki hefjast þremur korterum síðar.

Snæfellsliðið vitist ekki finna almennilega taktinn á síðasta keppnistímabili og sat í 6. sæti deildarinnar þegar keppni í Íslandsmótinu var hætt vegna Covid-19 í mars. Lengst af tímabilinu höfðu Snæfellskonur siglt nokkuð lygnan sjó um miðja deildina. Þeim hafði ekki tekist að blanda sér í baráttuna um sæti í úrslitakeppninni áður en mótið var blásið af en voru heldur aldrei í neinni alvöru fallbaráttu.

Haiden snýr aftur

Haiden Palmer í leik með Snæfelli veturinn 2015-2106. Ljósm. úr safni/ sá.

Leikstjórnandinn Haiden Palmer snýr aftur í Hólminn, en hún varð Íslands- og bikarmeistari með Snæfelli vorið 2016, setti stigamet í úrslitakeppninni og var einhver allra besti leikmaður deildarinnar þann veturinn. Þá hefur bakvörðurinn Iva Georgieva samið við Stykkishólmsliðið fyrir komandi leiktíð og miðherjinn Emese Vida, sem átti gott tímabil með Snæfelli í fyrra, mun leika með liðinu í vetur.

En stærstu breytingar á Snæfellsliðinu fyrir komandi tímabil eru án efa þær að systurnar Gunnhildur og Berglind Gunnarsdætur munu ekki leika með liðinu eins og þær hafa gert fjölmörg undanfarin ár. Gunnhildur lagði körfuboltaskóna á hilluna í vor og Berglind systir hennar er frá keppni eftir að hafa slasast alvarlega í rútuslysi í upphafi árs.

 

Þéttur og góður hópur

Halldór Steingrímsson er nýr þjálfari liðsins. Aðspurður segir hann að Snæfellsliðið vilji spila hraðan en agaðan leik í vetur, hreyfa boltann vel og ljúka hverri sókn með góðu skoti. Honum líst vel á komandi keppnistímabil. „Ég vissi áður en ég kom hingað að ég yrði með ungt lið í höndunum og fámennan æfingahóp. Núna erum við akkúrat átta á æfingum, Haiden Palmer verður níundi maðurinn og við erum að skoða að fá jafnvel tíunda leikmanninn til að ná að vera með tíu manna æfingahóp,“ segir Halldór. En þrátt fyrir að hópurinn sé kannski fámennari en gengur og gerist segir þjálfarinn hann einstaklega samheldinn. „Þetta er mjög þéttur og góður og skemmtilegur hópur,“ segir hann. „Núna eru þær líka allar í Hólminum, sem hefur ekki gerst í langan tíma að mér skilst,“ bætir hann við, en Snæfellsliðið hefur mörg undanfarin ár þurft að skipta hópnum í tvennt; hluti hans hefur æft í Stykkishólmi og annar hluti á höfuðborgarsvæðinu. „Það er mjög jákvætt að það séu allir að æfa saman,“ segir þjálfarinn og telur að það muni skila sér inni á vellinum.

 

Ætla í úrslitakeppnina

Aðspurður segir hann undirbúninginn hafa gengið ágætlega það sem af er. Þó sé stutt síðan Emese og Iva komu til liðs við hópinn og Haiden var enn væntanleg þegar blaðamaður ræddi við hann á fimmtudaginn síðasta. Hann er þó fullviss um að liðið verði tilbúið í slaginn þegar mótið hefst. „Við erum ekki alveg komin þangað sem við viljum vera en við náum því fyrir mótið og verðum klár í fyrsta leik,“ segir Halldór. En hvert er markmið Snæfells í Domino‘s deildinni í ár? „Markmiðið er að fara í úrslitakeppnina og við ætlum að gefa allt í það verkefni,“ segir þjálfarinnn að endingu.

Líkar þetta

Fleiri fréttir