Ljósm. úr safni/ af.

Tap í tíðindalitlum leik

Víkingur Ó. beið lægri hlut gegn Þór þegar liðin mættust í 1. deild karla í knattspyrnu í gærkvöldi. Leikið var á Akureyri og lauk viðureigninni með 1-0 sigri heimamanna.

Ólafsvíkingar voru ákveðnari fram á við í upphafi leiks, héldu boltanum vel og áttu nokkrar prýðilegar sóknir. Litlu munaði að þeir kæmust yfir á 18. mínútu leiksins þegar Þórleifur Úlfarsson skallaði boltann í þverslána eftir góða fyrirgjöf frá Gonzalo Zamorano. Var það besta færi fyrri hálfleiksins. Þórsarar komust aðeins betur inn í leikinn eftir því sem leið á, án þess að ná að skapa sér nein alvöru marktækifæri og staðan var því markalaus í hálfleik.

Eina mark leiksins leit dagsins ljós á 58. mínútu, en síðari hálfleikur hafði verið frekar tíðindalítill fram að því. Þórsarar fengu aukaspyrnu stuttu fyrir innan miðju á vallarhelmingi Ólafsvíkinga. Ólafur Aron Pétursson tók spyrnuna í átt að vítateignum. Vindurinn tók vel í boltann, sem sveif alla leið á markteiginn, skoppaði einu sinni í jörðinni og þaðan í netið alveg úti við stöng.

Fátt var um fína drætti í sóknarleik liðanna það sem eftir lifði leiks og leiknum lauk því með 1-0 sigri heimamanna á Akureyri.

Víkingur Ó. situr í 9. sæti deildarinnar með 16 stig, með fjögurra stiga forskot á næstu tvö lið fyrir neðan en tveimur stigum á eftir Aftureldingu. Mosfellingar eru einmitt næstu andstæðingar Ólafsvíkinga. Víkingur Ó. og Afturelding mætast í Mosfellsbæ á sunnudaginn, 20. september næstkomandi.

Líkar þetta

Fleiri fréttir