Verslunin Módel býður til risa lagerútsölu

Eins og kunnugt er hefur Verslunin Módel á Akranesi selt Verkalýðsfélagi Akraness 311 af 540 fermetra verslunarrými sínu við Þjóðbraut 1 á Akranesi. Þangað mun starfsemi Verkalýðsfélagsins verða flutt í haust. Verslunin Módel hefur því verið minnkuð sem því nemur og stúkuð af frá hinu selda rými. Að sögn Guðna Tryggvasonar kaupmanns í Módel er verslunin nú í mun hagkvæmara húsnæði og raun í kjörstærð fyrir gjafavöruverslun af þessu tagi. Auk þessa húsnæðis leigir Módel barnafataversluninni Hans og Grétu 180 fm. húsnæði, þannig að rýmið í heild var 750 fm.

En til að minnka lager og koma öllum vörum inn í þessa 230 fermetra verður næstu þrjá daga boðið upp á sannkallaða risa lagersölu í Módel. Þegar blaðamaður Skessuhorns leit við eftir hádegið í dag var starfsfólk að leggja lokahönd á útstillingu varanna og lækka verð frá 40 og allt upp í 95%, því freista á þess að selja allt. Greinilega verður hægt að gera kjarakaup og má búast við fjölmenni þegar dyrum lagersins verður lokið upp klukkan 11 í fyrramálið. Útsölunni lýkur svo á sunnudaginn.

Líkar þetta

Fleiri fréttir