Bragi Þór Svavarsson skólameistari MB.

Nemendur hafa verið duglegir að mæta í tíma á netinu

Í Menntaskóla Borgarfjarðar var hratt brugðist við lokun framhaldsskóla og strax á mánudaginn í síðustu viku, fyrsta kennsludag eftir lokun, voru allir nemendur komnir í fjarnám og sinntu námi samkvæmt stundaskrá. Að sögn Braga Þórs Svavarssonar skólameistara gengur námið mjög vel. Öll kennsla fer fram í gegnum fjarskiptaforrit og mæta nemendur í tíma í gegnum forritið Teams eða kennsluvef og merkja kennarar við mætingu og fylgjast með þátttöku nemenda. „Við höfum alveg haldið stundaskrá og kennsluáætlun en við vitum að áætlanir gætu eitthvað breyst meðan þetta ástand varir,“ segir Bragi í samtali við Skessuhorn. „Það vinnur samt með okkur að við erum skóli sem byggir á leiðsagnarmati og erum alltaf með verkefni og styttri próf allar vikur ársins. Við erum því ekkert að bíða með lokapróf fram á vor og getum haldið nokkuð óbreyttum hraða,“ bætir hann við.

Voru búin að undirbúa

Skólinn var að sögn Braga vel búinn til að takast á við þetta ástand, þar eru kennarar tæknivæddir og hugmyndaríkir og tilbúnir að gera hlutina á annan hátt. Nemendur eru einnig vanir tækni og móttækilegir fyrir nýjum aðferðum. „Við vorum líka búin að eyða talsverðum tíma vikuna áður í undirbúning. Við gerðum okkur grein fyrir að þetta gæti farið svona og vorum því búin að ákveða hvernig við myndum bregðast við. Strax á föstudeginum gátum við því haldið fund með kennurum og nemendum og kynnt nýtt fyrirkomulag fyrir þeim. Svo hófst kennsla bara glettilega eftir bókinni strax á mánudeginum,“ segir Bragi og bætir við að nemendur hafi verið mjög duglegir að mæta í tíma í gegnum netið.

Meta stöðuna daglega

Aðspurður segir Bragi stjórnendur skólans einnig hafa brugðist við með að skipta sér upp á vaktir. Hittir hann sjálfur til að mynda aldrei aðstoðarskólameistarann og virða allir starfsmenn nálægðarmörk. Þetta er gert til að reyna að hindra að allir veikist á sama tíma komi upp smit í hópnum. „Kennarar hafa frelsi til að meta hvort þeir vinni heima eða komi í skólann en þá er hver kennari með sína stofu til að vinna í. Við sjáum fram á að kennarar fari meira að vinna heima og við erum farin að hugsa um hvernig við munum bregðast við auknum veikindum og meiri lokunum,“ segir Bragi. „Í ljósi aðstæðna var sett á fót teymi sem í eru umsjónarkennarar, skólameistari, áfangastjóri og námsráðgjafi. Teymið fundar fyrst um sinn einu sinni í viku með það að markmiði að kortleggja stöðu nemenda. Á þeim fundum er farið yfir mætingu og verkefnaskil nemenda og verkum skipt upp hvað eftirfylgni varðar,“ segir hann og bætir við að daglega eru einnig haldnir stöðufundir í skólanum. „Þá hittast þeir sem geta í stórum sal í skólanum og gæta þess að hafa allavega tvo metra á milli fólks. Aðrir koma á fundinn í gegnum fjarfundarbúnað. Á fundunum förum við yfir hvernig gengur og hvað bíði okkar,“ segir Bragi og bætir því við að hann er bjartsýnn fyrir framhaldinu í skólanum.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Nýr formaður SFS

Ólafur Marteinsson, framkvæmdastjóri Ramma á Siglufirði, hefur tekið við formennsku af Jens Garðari Helgasyni í Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi. Tveir... Lesa meira