Ljósm. úr safni/ sá.

Mættu ofjörlum sínum

Snæfellskonur mættu ofjörlum sínum þegar þær fengu KR í heimsókn í Stykkishólm á laugardaginn. Gestirnir réðu ferðinni frá fyrstu mínútu og sigruðu að lokum örugglega, 56-83.

Snæfellskonur áttu afleitan upphafsfjórðung, þar sem þær skoruðu að eins fimm stig gegn 26 stigum KR-inga. Annað var uppi á teningnum í öðrum leikhluta, þar sem jafnt var á með liðunum. En það þýddi aðeins að forysta KR hélst að kalla óbreytt til hálfleiks. Gestirnir leiddu með 21 stigi í hléinu, 44-23.

Það sama var uppi á teningnum í þriðja leikhluta. KR-ingar héldu um það bil 20 stiga öruggu forskoti allan leikhlutann en Snæfellsliðið náði aldrei að svara fyrir sig minnka muninn að neinu ráði. Gestirnir voru mun sterkari í lokafjórðungnum, komust mest 32 stigum yfir, en Snæfellskonur náðu aðeins að laga stöðuna undir lokin. Að endingu fór svo að KR sigraði með 26 stigum, 56-82.

Emese Vida var stigahæst í liði Snæfels með 15 stig og hún tók 15 fráköst að auki. Amarah Coleman var með tíu stig og níu fráköst, Anna Soffía Lárusdóttir skoraði átta stig og tók fimm fráköst, Tinna Guðrún Alexandersdóttir skoraði sjö stig, Gunnhildur Gunnarsdóttir var með fimm stig, Veera Pirttinen skoraði þrjú stig og þær Björg Guðrún Einarsdóttir, Helga Hjördís Björgvinsdóttir og Rebekka Rán Karlsdóttir skoruðu tvö stig hver.

Sanja Oranzovic var atkvæðamest í liði KR með 16 stig og sjö fráköst, Hildur Björg Kjartansdóttir skoraði 15 stig og tók sex fráköst, Danielle Rodriguez var með tólf stig, Þorbjörg Andrea Friðriksdóttir skoraði ellefu og Sóllilja Bjarnadóttir skoraði tíu stig.

Snæfell siglir nokkuð lygnan sjó í sjötta sæti deildarinnar með tólf stig, átta stigum fyrir ofan Grindavík en tólf stigum á eftir Keflavík í sætinu fyrir ofan.Næsti leikur Hólmara er útileikur gegn Keflvíkingum miðvikudaginn 19. febrúar næstkomandi.

Líkar þetta

Fleiri fréttir