Amarah Coleman gerir hér harða atlögu að körfu Skallagrímskvenna og sækir stig fyrir Snæfell. Ljósm. sá.

Snæfellskonur réðu ferðinni í Vesturlandsslagnum

Snæfell sigraði Skallagrím örugglega í Vesturlandsslag Domino‘s deildar kvenna í körfuknattleik. Liðin mættust í Stykkishólmi á í gærkvöldi. Það voru Hólmarar sem höfðu yfirhöndina stærstan hluta leiksins og sigruðu að lokum með 19 stigum, 73-54.

Snæfellskonur voru öflugar í upphafi leiks. Þær skoruðu fyrstu sjö stigin áður en Borgnesingar komust á blað. Snæfell réði ferðinni í fyrsta leikhluta, komst í 19-5 seint í leikhlutanum áður en Skallagrímskonur tóku smá rispu og löguðu stöðuna í 19-10 áður en upphafsfjórðungurinn var úti. Munurinn á liðunum var í kringum tíu stig framan af öðrum leikhluta, en á lokamínútum fyrri hálfleiks voru Skallagrímskonur sterkari. Þær minnkuðu muninn í þrjú stig þegar leikhlutinn var rúmlega hálfnaður. Allt í allt skoruðu þær 20 stig gegn 16 í öðrum fjórðungi og því munaði ekki nema fimm stigum á liðunum í hálfleik. Snæfell leiddi, 35-30 og leikurinn galopinn.

Jafnræði var með liðunum framan af þriða leikhluta. Skallagrímskonur minnkðu muninn í þrjú stig þegar leikhlutinn var um það bil hálfnaður en eftir það tóku Snæfellskonur smá rispu og höfðu átta stiga forskot fyrir lokafjórðunginn. Þar höfðu heimakonur yfirhöndina. Skallagrímskonum tókst ekki að gera atlögu að Snæfells, sem hélt forystu sinni um það bil óbreyttri framan af leikhlutanum. Á lokamínútum leiksins tóku Snæfellskonur síðan mikinn endasprett og sigruðu að lokum með 19 stiga mun, 73-54.

Amarah Coleman var stigahæst í liði Snæfells með 18 stig, níu fráköst og átta stolna bolta. Anna Soffía Lárusdóttir skoraði 13 stig og tók sjö fráköst, Emese Vida var með tíu stig og tólf fráköst og Rebekka Rán Karlsdóttir var með tíu stig einnig. Veera Pirttinen skoraði níu stig og gaf sjö stoðsendingar, Gunnhildur Gunnarsdóttir var með níu stig og sex fráköst, Björg Guðrún Einarsdóttir skoraði þrjú stig og Helga Hjördís Björgvinsdóttir skoraði eitt.

Keira Robinson var stigahæst í liði Skallagríms með 21 stig og ellefu fráköst að auki. Emilie Hesseldal skoraði 16 stig og tók tólf fráköst, Sigrún Sjöfn Ámundadóttir skoraði tíu stig og tók ellefu fráköst, Árnína Lena Rúnarsdóttir var með þrjú stig og þær Maja Michalska og Mathilde Colding-Poulsen skoruðu tvö stig hvor.

Staða liðanna í deildinni er þannig að Skallagrímskonur sitja í fimmta sæti með 20 stig, tveimur stigum á eftir Haukum í sætinu fyrir ofan og í mikilli baráttu um sæti í úrslitakeppninni. Snæfellskonur sigla hins vegar nokkuð lygnan sjó í sjötta sæti með tíu stig og hafa sex stiga forskot á Breiðablik í sætinu fyrir neðan.

Bæði lið leika næst miðvikudaginn 29. janúar. Skallagrímur fær KR í heimsókn í Borgarnes en Snæfellskonur mæta Grindavík suður með sjó.

Líkar þetta

Fleiri fréttir